Um KMÍ
Á döfinni

6.9.2017

Alma hlaut sérstaka viðurkenningu Eurimages í Haugasundi

Kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Alma,  hlaut sérstaka viðurkenningu frá Eurimages fyrir verk í vinnslu á New Nordic Films markaðnum á kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi í lok ágúst.

Dómnefndin var mjög uppnumin yfir þeim miklu gæðum og margbreytileika sem einkenndi þau verk sem kepptu um verðlaunin að þessu sinni og með þeirra orðum var „það viss áskorun að komast að niðurstöðu um sigurvegara.“ Dómnefndin var skipuð þeim Doina Bostan (úr stjórn Eurimages), Guðmundi Arnari Guðmundssyni (leikstjóra), Nikolaj Nikitin (fulltrúa frá alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín) og Håkon Skogrand (blaðamanni) og þar sem kvikmyndin Alma kom sterkt til álita að fá verðlaunin var ákveðið að veita henni sérstaka viðurkenningu.

Alma er framleidd af Tvíeyki, Pegasus, Little Big Productions (Svíþjóð), Arsam International (Frakkland) og JStark Films (Bandaríkin) og aðalhlutverk leika Snæfríður Ingvarsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Kristbjörg Kjeld og Emmanuelle Riva.

Áætlað er að Alma verði tilbúin undir lok árs 2017.