Um KMÍ
Á döfinni

14.5.2021

Alma og Já-fólkið sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum

Kvikmyndin Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur og stuttmyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson eru nú í sýningum í íslenskum kvikmyndahúsum. Alma var frumsýnd þann 7. maí síðastliðinn og er sýnd í Smárabíó, Háskólabíó og Bíó Paradís. Já-fólkið er sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni og Keflavík á undan kvikmyndinni The Courier sem var frumsýnd þann 13. maí. 


Alma - trailer

Alma er örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprellifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

Þetta er þriðja bíómynd Kristínar, en hún sendi frá sér Á hjara veraldar 1983 og Svo á jörðu sem á himni 1992. Kristín skrifar handrit og leikstýrir. Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Egil Ødegård framleiða. Með helstu hlutverk fara Snæfríður Ingvarsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Emmanuelle Riva og Hilmir Snær Guðnason. 


Já-fólkið trailer

Já-fólkið var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta teiknaða stuttmyndin og fjallar um íbúa í blokk sem er fylgt í einn dag. Glíman við hversdagsleikann er misjöfn og ljóst að rútínan litar líf þeirra (og rödd). Þetta er gamansöm mynd um fjötra vanans.  

Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz. Með aðalhlutverk fara Helga Braga Jónsdóttir, Jón Gnarr, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Kristján Franklín Magnús og Sigurður Sigurjónsson.