Um KMÍ
Á döfinni

13.4.2018

Arctic valin til þátttöku á Cannes – Pegasus meðframleiðandi

Arctic, ný bandarísk kvikmynd meðframleidd af Lilju Ósk Snorradóttur, Snorra Þórissyni og Einari Sveini Þórðarsyni fyrir íslenska framleiðslufyrirtækið Pegasus, hefur verið valin til þátttöku á hinni virtu Cannes kvikmyndahátíð. Mikill fjöldi Íslendinga komu að myndinni á öllum stigum framleiðslunnar, þar á meðal Tómas Örn Tómasson og leikkonan María Thelma Smáradóttir, sem fer með hlutverk í henni. Myndin er hluti af opinberu vali hátíðarinnar og verður þar heimsfrumsýnd á miðnætursýningum. Um mikinn heiður er að ræða, enda Cannes hátíðin ein sú stærsta í heiminum.

Arctic segir frá manni sem er strand á Norðurpólnum. Björgun virðist loks í aðsigi en fer út um þúfur vegna hræðilegs slyss. Hann þarf þá að ákveða hvort hann bíði áfram eftir björgun í hinum tiltölulega öruggu búðum eða haldi í hættulegan leiðangur í þeirri von að bjargast fyrr.

Arctic er leikstýrt af Joe Penna, sem skrifar einnig handritið ásamt Ryan Morrison. Í aðalhlutverki er Mads Mikkelsen og fer  María Thelma Smáradóttir með hlutverk í myndinni. Eins og áður segir sér Tómas Örn Tómasson um stjórn kvikmyndatöku, myndin er klippt af Ryan Morrison og tónlistin er samin af Joseph Trapanese. Aðalframleiðendur Arctic eru Christopher Lemole og Tim Zajaros fyrir Armory Films og Noah C. Haeussner fyrir Union Entertainment Group. Myndin er meðframleidd af Lilju Ósk Snorradóttur, Snorra Þórissyni og Einari Sveini Þórðarsyni fyrir Pegasus. Auk þess er Einar Þorsteinsson einn framleiðenda. Árni Gústafsson sér um hljóðblöndun, Ragna Fossberg sér um förðun, Margrét Einarsdóttir hannaði búninga, Atli Geir Grétarsson og Gunnar Pálsson hönnuðu leikmynd og framkvæmdastjórn er í höndum Begga Jónssonar.

Fjöldi annarra Íslendinga kom að framleiðslu myndarinnar, sem er öll tekin upp hér á landi og hlaut 25% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.

Um sölu og dreifingu erlendis sér XYZ Films (info@xyzfilms.com).