Um KMÍ
Á döfinni

24.4.2018

Birgitta Björnsdóttir valin til þátttöku á Producers on the Move í Cannes

Framleiðandinn Birgitta Björnsdóttir verður fulltrúi Íslands á Producers on the Move í Cannes, sem samtökin European Film Promotion standa fyrir. Hvert aðildarríki European Film Promotion tilnefnir einn aðila til þátttöku og hlotnaðist Birgittu sá heiður að vera fulltrúi Íslands að þessu sinni. Aðilar frá 20 löndum taka þátt í ár. Producers on the Move fer fram dagana 10. - 14. maí samhliða Cannes kvikmyndahátíðinni.

Birgitta Björnsdóttir hefur framleitt kvikmyndir síðan árið 2011 og er önnur af stofnendum framleiðslufyrirtækisins Vintage Pictures. Hún er einn af meðframleiðendum Kona fer í stríð, sem var nýverið valin til þátttöku á Critics‘ Week í Cannes og hefur áður framleitt Svaninn sem var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og var valin besta kvikmyndin á kvikmyndahátíðinni í Kaíró og vann fyrir bestu leikstjórn í Kolkata í Indlandi. Hún er með nokkrar myndir í þróun, þar á meðal Hæ, hó Agnes Cho sem mun fara í tökur í haust.

Framleiðendurnir sem taka þátt í Producers on the Move eiga það sameiginlegt að hafa þegar framleitt mynd sem hefur náð alþjóðlegri dreifingu og setja stefnuna ennfremur á að skapa sér sess á alþjóðlegum vettvangi. Á Producers on the Move skapast einstakt tækifæri til að koma upp tengslaneti með það fyrir augum að fara í evrópskt samstarf.

Producers on the Move er styrkt af Creative Europe - Media áætlun Evrópusambandsins.