Um KMÍ
Á döfinni

16.7.2021

Dýrið valin frumlegasta myndin og stuttmyndin Céu de Agosto hlaut sérstaka viðurkenningu á Cannes

Dýrið , kvikmynd eftir Valdimar Jóhannsson, var valin frumlegasta myndin í Un Certain Regard keppninni á Cannes kvikmyndahátíðinni, einnar stærstu og virtustu kvikmyndahátíðar heims. Og brasilíska/íslenska stuttmyndin Céu de Agosto eftir Jasmin Tenucchi hlaut sérstaka viðurkenningu eða „special mention“ í stuttmyndaflokki hátíðarinnar.

Bæði Dýrið og Céu de Agosto voru heimsfrumsýndar á hátíðinni og hlutu góðar viðtökur jafnt meðal gagnrýnenda sem og annarra gesta hátíðarinnar. Um gífurlegan heiður er að ræða og óskum við aðstandendum myndanna innilega til hamingju.

IFC0107_frettabref_merki5

Dýrið fjallar um sauðfjárbændurna Maríu (Noomi Rapace) og Ingvar (Hilmir Snær Guðnason) sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu.

Sjón skrifaði handritið ásamt leikstjóranum Valdimari Jóhannssyni. Aðalframleiðendur myndarinnar eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim fyrir hönd Go to Sheep en meðframleiðendur eru Piodor Gustafsson, Erik Rydell, Klaudia Smieja-Rostworowska og Jan Naszewski. Framleiðslufyrirtækin Black Spark Films & TV og Madants framleiddu myndina í samstarfi við Film i Väst, Chimney Sweden, Chimney Poland, Rabbit Hole Productions og Helga Jóhannsson .

Með aðalhlutverk fara Noomi Rapace, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson og Ingvar E. Sigurðsson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Eli Arenson og Agnieszka Glińska sér um klippinguna myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Þórarni Guðnasyni og hljóðhönnun er í höndum Ingvars Lundberg og Björns Viktorssonar. Listrænir stjórnendur eru Anna María Tómasdóttir og Steingrímur Ingi Stefánsson og tæknibrellur sjá Peter Hjorth og Fredrik Nord um en leikmynd gerir Snorri Freyr Hilmarsson. Búningahöfundur myndarinnar er Margrét Einarsdóttir og Kristín Júlla Kristjánsdóttir sér um hár og förðun.

Un Certain Regard hluti Cannes kvikmyndahátíðarinnar var settur á laggirnar árið 1978 og þar er keppt um Prix Un Certain Regard auk annarra verðlauna. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem hafa gert kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, m.a. með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi. Andrea Arnold var forseti dómnefndar Un Certain Regard keppninnar þetta árið.

IFC111_Cannes_frettabref017_1624887472227

Céu de Agosto er skrifuð og leik­stýrt af hinni bras­il­ísku Jasmin Tenucci en fram­leidd af Kára Úlfs­syni og klippt af Brúsa Ólasyni. Alls sóttu tæp fjögur þúsund stuttmyndir um þátttöku á hátíðinni en aðeins tíu voru valdar í keppni.

Nánari upplýsingar um myndina má finna hér.

Kari-jasmin-special-mention

Skemmst er frá því að segja að frumlegasta myndin í flokknum Un Certain Regard og sérstök viðurkenningin fyrir stuttmynd voru ekki einu verðlaunin sem íslensk framleiðsla hlaut í ár á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hundurinn Panda sem leikur í Dýrinu deildi svokölluðum dómnefndarverðlaunum í óformlegri keppni Cannes sem nefnist „Palm dog“ en aðalverðlaunin fengu hundarnir hennar Tildu Swinton sem léku í myndinni The Souvenir Part II.

Panda

Íslenskar myndir sem hafa áður verið í Un Certain Regard flokknum eru Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson árið 1993, framleidd af Jóni Ólafssyni, Stormviðri eftir Sólveigu Anspach árið 2003, framleidd af Baltasar Kormáki í samvinnu við Patrick Sobelman, Voksne mennesker eftir Dag Kára árið 2005, framleidd af Dönum í samvinnu við Zik Zak kvikmyndir hérlendis og áðurnefnd Hrútar eftir Grím Hákonarson, framleidd af Grímari Jónssyni fyrir Netop Films og meðframleiðendur hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures.