Um KMÍ
Á döfinni

17.8.2018

Fjögur íslensk verkefni í vinnslu á Nordisk Forum

Alls munu fjögur íslensk verkefni í vinnslu taka þátt í Nordisk Forum, sem fer fram sem hluti af Nordisk Panorama hátíðinni frá 23. - 25. september. Þrjú af verkefnunum voru valin til þátttöku og verða kynnt í Pitch hluta vettvangsins. Þetta eru heimildamyndirnar 3. póllinn eftir Andra Snæ Magnason, Towtruck eftir Ólaf de Fleur Jóhannesson og Beauty and the Beast – The Rest Will be History eftir Margréti Seema Takyar, sem tekur þátt undir formerkjum Wildcard Iceland. 

Þá mun önnur íslensk heimildamynd, Raise the Bar eftir Guðjón Ragnarsson, taka þátt sem Observer+

Nordisk Forum er vettvangur fyrir heimildamyndagerðarfólk sem vill komast í samband við fjölda norrænna og alþjóðlegra aðila frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndastofnunum og ýmsum sjóðum með það fyrir augum að verða heimildamyndum sínum úti um fjármagn.

Nánar um verkefnin

Nf01

3. póllinn er saga um tvær manneskjur sem tengjast í gegnum sama sjúkdóm. Fílaprinsessan Anna Tara kallar til sín rokkstjörnuna Högna til að kveða niður skömmina sem fylgir geðhvörfum með því að halda stórtónleika í Katmandu. Andri Snær Magnason leikstýrir myndinni og framleiðendur eru Hlín Jóhannesdóttir, Andri Snær Magnason, Sigurður Gísli Pálmason og Halldóra Þorláksdóttir fyrir Ground Control Productions.

Nf02

Towtruck fjallar um Darryl Francis, sem var á táningsárum ranglega dæmdur í fangelsi fyrir meðsekt að morði í Los Angeles. Darryl varði tveimur áratugum í fangelsi og uppgötvaði þar kraft skapandi skrifa og notkun húmors til að hjálpa sér að þrauka fangelsisvistina. Nú er hann laus úr fangelsi og reynir að fá Hollywood til að gera handrit sitt að kvikmynd, á sama tíma og hann reynir að takast á við félagslegt óréttlæti og persónuleg áföll. Ólafur de Fleur Jóhannesson leikstýrir myndinni og Kristín Andrea Þórðardóttir og Ólafur de fleur Jóhannesson framleiða fyrir Poppoli.

Nf04

Beauty and the Beast – The Rest Will be History segir frá dönsurunum Beast og Beauty. Þegar þær ákveða að nota danstúr sinn til að hrista upp í úreltu hegðunarmynstri kvenna og þeim samfélagslegu takmörkunum sem því fylgir, eru þær á barmi þess að koma á fót stefnu sem gæti gert þær ofboðslega frægar eða meira einmana en nokkru sinni fyrr. Margrét Seema Takyar leikstýrir myndinni og Arnbjörg Hafliðadóttir framleiðir fyrir Glass River.

Nf03

Raise the Bar segir frá Brynjari Karli, sem er heimsklassa körfuboltaþjálfari. Fyrir rúmlega 2 árum tók hann að sér að þjálfa 9 ára stelpur í Garðabæ. Markmið hans er að hækka ránna í þjálfun kvennaliða. Hann hefur sannað að aðferðir hans hjálpi stelpunum ekki aðeins í körfuboltafærni heldur auki þær einnig tilfinningagreind sína. Verkefnið er farið að smitast út í samfélagið og mun breyta því hvernig við horfum á jafnrétti kynjanna. Guðjón Ragnarsson leikstýrir myndinni og Sagafilm framleiðir.