Um KMÍ
Á döfinni

20.10.2017

Fjöldi íslenskra kvikmynda á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck

Samtals verða níu íslenskar kvikmyndir sýndar á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi, sem fara fram frá 1. – 5. nóvember næstkomandi. Myndirnar sem um ræðir eru kvikmyndirnar Undir trénu, Ég man þig og Svanurinn, sjónvarpsþáttaraðirnar Loforð og Stella Blómkvist, stuttmyndirnar Ungar og Munda og heimildamyndirnar Reynir sterki og Dóra – Ein af strákunum.

Undir trénu undir leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar verður sýnd í keppni kvikmyndahluta hátíðarinnar.

Ég man þig undir leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar verður sýnd í Specials hluta hátíðarinnar.

Svanurinn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur og Loforð undir leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar verða sýndar í keppni barna- og unglingahluta hátíðarinnar.

Fyrstu tveir þættirnir af Stellu Blómkvist undir leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar verða sýndir í Drama Series hluta hátíðarinnar.

Ungar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Munda undir leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur verður sýnd í stuttmyndahluta hátíðarinnar.

Reynir sterki eftir Baldvin Z verður sýnd í heimildamyndahluta hátíðarinnar og Dóra – Ein af strákunum verður sýnd í sama hluta og tekur þar þátt í keppni heimildamynda.

Fjöldi aðstandenda verða viðstaddir Norræna kvikmyndaga í Lübeck, þeirra á meðal Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri og annar handritshöfunda Undir trénu ásamt Grímari Jónssyni, einum af framleiðendum myndarinnar. Óskar Þór Axelsson leikstjóri Ég man þig og Stellu Blómkvist verður viðstaddur og sömuleiðis Hlín Jóhannesdóttir, einn framleiðenda Svansins. Bragi Þór Hinriksson leikstjóri og framleiðandi Loforðs og Árni Gunnarsson leikstjóri og handritshöfundur Dóru – Ein af strákunum verða einnig viðstaddir.