Um KMÍ
Á döfinni

12.11.2018

Halldóra Geirharðsdóttir og Sverrir Guðnason tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Halldóra Geirharðsdóttir hefur verið tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki leikkvenna í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson. Sverrir Guðnason, íslenski leikarinn sem hefur búið og starfað í Svíþjóð um árabil, hlaut einnig tilnefningu í flokki leikara í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Borg/McEnroe eftir Janus Metz. Verðlaunaafhendingin mun fara fram á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla á Spáni þann 15. desember.

Allar tilnefningar er að finna á heimasíðu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Halldóra hefur þegar unnið til verðlauna fyrir hlutverk sitt í Kona fer í stríð fyrir bestu leikkonu á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Valladolid á Spáni. Hún hefur einnig hlotið lof hvarvetna í dómum um myndina, þar á meðal hjá hinum virtu kvikmyndatímaritum Variety, Screen International og Cineuropa, ásamt The Guardian og Morgunblaðinu.

Kona fer í stríð vann nýverið til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og hefur nú unnið til samtals 13 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd í Critics‘ Week hluta hinnar virtu kvikmyndahátíðar í Cannes, þar sem fjögur verðlaunanna unnust.

Sverrir Guðnason hefur kveðið sér hljóðs sem einn fremsti leikari Svíþjóðar á undanförnum árum. Hann hefur tvisvar unnið til Guldbagge verðlauna sænsku kvikmyndaakademíunnar og var tilnefndur fyrir leik sinn í Borg/McEnroe í ár. Hann hefur hlotið lofsamlega dóma fyrir frammistöðu sína, m.a. hjá Screen International og Washington Post.

Myndin hefur unnið til fjögurra alþjóðlegra verðlauna og tvennra Guldbagge verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto í Kanada.