Um KMÍ
Á döfinni

14.7.2021

Heimildamyndin Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson verður sýnd á Adelaide kvikmyndahátíðinni og Castlemaine heimildamyndahátíðinni í Ástralíu

Heimilamyndin Hækkum rána undir leikstjórn Guðjóns Ragnarssonar hefur verið valin á tvær ástralskar kvikmyndahátíðir í júlí, Adelaide Film Festival Youth og Castlemaine Documentary Festival.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem myndin er sýnd á erlendum kvikmyndahátíðum en hún var frumsýnd á heimildamyndahátíðinni Hot Docs í Kanada fyrr á þessu ári. Hátíðin er ein stærsta sinnar tegundar í heiminum.

Heimildamyndin fjallar um réttindabaráttu 8-13 ára stúlkna sem vilja breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi og eru þjálfaðar af óvenjulegum þjálfara sem hækkar í sífellu rána. Myndin var fyrst sýnd í Sjónvarpi Símans Premium í byrjun febrúar og vakti mikla athygli.

Myndin er framleidd af Margréti Jónasdóttur fyrir Sagafilm og meðframleidd af Outi Rousu fyrir finnska framleiðslufyrirtækið Pystymetsä Oy. Einnig hefur verið gengið frá dreifingaréttarsamningi á heimsvísu en dreifingarfyrirtækið Cat&Docs og Sagafilm hafa skrifað undir samning þess efnis og hefur þegar verið gengið frá fyrstu sölum myndarinnar.