Um KMÍ
Á döfinni

21.2.2020

Heimildamyndin In Touch eftir Pawel Ziemilski tilnefnd til pólsku kvikmyndaverðlaunanna

Hin pólska/íslenska heimildamynd In Touch eftir Pawel Ziemilski er tilnefnd til pólsku kvikmyndaverðlaunanna sem besta heimildamyndin. Verðlaunaafhendingin fer fram þann 2. mars næstkomandi. Myndin hefur unnið til fjölda verðlauna, m.a. vann hún til sérstakra dómnefndaverðlauna í aðalkeppni á IDFA, einni stærstu heimildarmyndahátíð í heimi, þar sem hún var frumsýnd. 

In Touch fjallar um fólk frá smábænum Stary Juchy í Póllandi og tengingu þeirra við fjölskyldumeðlimi sína á Íslandi. Þriðjungur íbúa hvarf til starfa á Íslandi og þeir sem eftir eru, flestir af eldri kynslóðinni, halda í vonina um að börn þeirra og barnabörn snúi einn daginn til baka. Í millitíðinni, verða þau að láta rafræn samskipti hlýja sér um rætur þar sem mörg þúsund kílómetrar skilja þau að.

In Touch er framleidd af Lukasz Dluglecki og Hauki M. Hrafnsyni fyrir NUR og meðframleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures. Fjölmargir Íslendingar komu að gerð myndarinnar sem tekin var upp að miklu leyti á Íslandi. Þar á meðal sá Ásta Júlía Guðjónsdóttir um kvikmyndatökur hér á landi, Haukur M. kom að handritsgerðinni og frumsamin tónlist er eftir Árna Val Kristinsson.