Um KMÍ
Á döfinni
  • Hjartasteinn

17.2.2017

Hjartasteinn áfram á sigurbraut á nýju ári

Hjarta­steinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson heldur áfram góðu gengi sínu á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Framleiðendur myndarinnar hlutu Lorens verðlaunin fyrir bestu framleiðendur að kvikmynd á kvik­mynda­hátíðinni í Gauta­borg, myndin vann dreifingarkeppni Scope100 í Portúgal og Svíþjóð og vann þrenn verðlaun á Premiers Plans kvikmyndahátíðinni í Angers í Frakklandi.

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er stærsta kvikmyndahátíð Norðurlanda. Lorens verðlaunin hlutu aðalframleiðendurnir Anton Máni Svansson, Lise Orheim Stender, Jesper Morthorst og Guðmundur Arnar Guðmundsson.

Sigur Hjartasteins í dreifingarkeppni Scope100 í Portúgal og Svíþjóð þýðir að myndin hlýtur dreifingu í báðum löndum.

Hjartasteinn var frumsýnd í Frakklandi á Premiers Plans hátíðinni í Angers og vann þar til aðalverðlauna hátíðarinnar fyrir bestu mynd, áhorfendaverðlaun hátíðarinnar og Erasmus verðlaun hátíðarinnar.

Hjartasteinn hefur nú þegar unnið til sjö alþjóðlegra verðlaun á þessu ári og samtals 20 alþjóðlegra verðlauna frá því hún var heimsfrumsýnd í Feneyjum í ágúst á síðasta ári.

Myndin hlaut á dögunum 16 tilnefningar til Edduverðlauna. Edduverðlaunahátíðin fer fram sunnudaginn 26. febrúar næstkomandi.