Um KMÍ
Á döfinni
  • Hjartasteinn

10.10.2017

Hjartasteinn tilnefnd til EUFA verðlaunanna – hefur unnið til 38 alþjóðlegra verðlauna

Hjartasteinn, hin margverðlaunaða fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, er ein af aðeins fimm kvikmyndum sem eru tilnefndar til European University Film Award. EUFA verðlaunin eru á vegum Prix collégial du cinéma québécois, Filmfest Hamburg og European Film Academy og mun fara fram í Berlín samhliða Evrópsku kvikmyndaverðlaununum þann 9. desember næstkomandi.

Tilnefningin þýðir að Hjartasteinn verður sýnd og rædd í 21 háskóla í Evrópu og í kjölfarið kemst hver skóli að niðurstöðu um hver sé besta myndin. Þetta er annað árið sem EUFA verðlaunin fara fram. Í fyrra vann hin margverðlaunaða kvikmynd Ken Loach, I, Daniel Blake, til verðlaunanna.

Hjartasteinn er ein af 51 kvikmynd sem er í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Þessi 51 kvikmynd voru þær sem komu til greina til tilnefningar fyrir EUFA verðlaunin. Tilkynnt verður um tilnefningar til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla þann 4. nóvember næstkomandi.

38 alþjóðleg verðlaun

Hjartasteinn hefur átt frábæru gengi að fagna á ferðalagi sínu um kvikmyndahátíðir heimsins og vann nýlega til 38. alþjóðlegu verðlauna sinna á kvikmyndahátíðinni í Münster í Þýskalandi. Þar var Guðmundur Arnar Guðmundsson valinn besti leikstjórinn í keppni evrópskra kvikmynda.

Hjartasteinn vann einnig til níu verðlauna á Edduverðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum.