Um KMÍ
Á döfinni

7.3.2017

Hjartasteinn vinnur til verðlauna í Frakklandi og Serbíu

Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson heldur áfram að sanka að sér verðlaunum. Á dögunum vann myndin  til níu Edduverðlauna, þar á meðal fyrir bestu mynd. Skömmu áður hafði hún unnið til sérstakra dómnefndarverðlauna og verðlaun dómnefndar ungmenna á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Annonay í Frakklandi. Um nýliðna helgi vann hún svo til verðlauna fyrir bestu frumraun og dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Belgrad í Serbíu.

Guðmundur Arnar var viðstaddur hátíðina í Annonay og Belgrad og veitti verðlaununum viðtöku eins og sjá má á myndunum hér að ofan.

Hjartasteinn hefur nú unnið til 11 alþjóðlegra verðlauna á árinu ásamt áðurnefndum níu Edduverðlaunum. Samtals hefur myndin unnið til 24 alþjóðlegra verðlauna frá því hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ágúst 2016, þar sem hún vann sín fyrstu verðlaun. Auk þess vann hún til þrennra verðlauna í netkosningu Cinema Scandinavia vefritsins.