Um KMÍ
Á döfinni

4.11.2019

Hvítur, hvítur dagur vann aðalverðlaunin í Lübeck - Bergmál vann til Interfilm kirkjuverðlaunanna

Hvítur, hvítur dagur, kvikmynd Hlyns Pálmasonar, vann til aðalverðlaunanna fyrir bestu kvikmynd á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi. Bergmál, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, vann til Interfilm kirkjuverðlaunanna á hátíðinni.

Hvítur, hvítur dagur er framlag Íslands til Óskarsverðlaunnanna árið 2020 og er í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í ár. Myndin hefur unnið til fjölda verðlauna síðan hún var frumsýnd á Critics' Week í Cannes, þar sem Ingvar E. Sigurðsson vann verðlaun fyrir hlutverk sitt í myndinni. Ingvar var viðstaddur hátíðina í Lübeck og tók við verðlaununum fyrir hönd aðstandenda.  

Nýverið hlaut Rúnar Rúnarsson verðlaun fyrir bestu leikstjórn fyrir Bergmál á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Seminci í Valladolid á Spáni, en spænskir gagnrýnendur hafa fjallað um myndina síðastliðna daga og gefið henni afar góða dóma. Bergmál var heimsfrumsýnd í haust í aðalkeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss og hlaut þar aðalverðlaun dómnefndar unga fólksins. Lilja Ósk Snorradóttir, framleiðandi myndarinnar, tók við verðlaununum fyrir hönd aðstandenda Bergmáls á hátíðinni í Lübeck.

Hér má finna rökstuðning dómnefnda vegna verðlaunanna sem íslensku kvikmyndirnar unnu til.