Um KMÍ
Á döfinni

15.11.2018

In Touch valin í aðalkeppni IDFA

Íslensk/pólska heimildamyndin In Touch eftir Pawel Ziemilski hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni IDFA, einni stærstu heimildamyndahátíð heims, sem fer fram í Amsterdam um þessar mundir. Hátíðin stendur yfir frá 14. – 25. nóvember.

Mikill heiður þykir að keppa til verðlauna á IDFA, en árlega sækja yfir 3.000 myndir um að komast að á hátíðinni og einungis eru um 80 myndir valdar til þátttöku.

In Touch er framleidd af Lukasz Dluglecki og Hauki M Hrafnssyni fyrir NUR og meðframleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures. Fjölmargir Íslendingar komu að gerð myndarinnar sem tekin var upp að miklu leyti á Íslandi. Íslenskur kvikmyndatökumaður myndarinnar er Ásta Júlía Guðjónsdóttir og frumsamin tónlist er eftir Árna Val Kristinsson.

Í myndinni tvístrast þorpið Stare Juchy í Póllandi eftir að þriðjungur íbúa þess hverfur til starfa á Íslandi. Þeir sem eftir eru, flestir af eldri kynslóðinni, halda í vonina að börn þeirra og barnabörn snúi einn daginn til baka þrátt fyrir að hafa hafið nýtt líf hinum megin í Evrópu. Fjarlægðin á milli þeirra er mikil og ferðin er dýr, svo fjölskyldur fá ekki að faðmast eins oft og þær kjósa. Besta í stöðunni er að vera í tíðu og áköfu sambandi í gegnum Skype.

Í In Touch gerir Pawel Ziemilski, leikstjóri myndarinnar,  tilraun til þess að færa þessar brotnu fjölskyldur saman á ný á sjónrænan hátt með endurvarpi hreyfimynda á bakgrunn sem hefur sérstakt gildi og merkingu fyrir þá sem eiga hlut að máli; á veggi æskuheimilisins, félagsheimilisins , úti í náttúrunni, á ástvini. Útkoman er einlæg og frumleg kvikmynd um raunveruleika sem svo margir búa við og eilíflegar tilfinningar líkt og heimþrá og fjölskylduást.

Árið 2009 varð Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason fyrst íslenskra mynda til að vera valin til þátttöku í aðalkeppni hátíðarinnar og síðan þá hafa eingöngu þrjár íslenskar myndir keppt til verðlauna á hátíðinni; Fálkasaga eftir Þorkel S. Harðarson og Örn Marinó Arnarson og hin bresk/íslenska Future of Hope eftir Henry Bateman voru valdar til keppni árið 2010 og hin spænsk/íslenska La Chana var valin til keppni árið 2016 og vann til áhorfendaverðlauna.