Um KMÍ
Á döfinni
  • LaFMFavourites1

24.2.2020

Ísland á Berlínarhátíðinni

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Berlín fer fram í 70. skipti dagana 20. febrúar - 1. mars. 

Berlinale Special

Last and First Men, kvikmynd eftir Jóhann Jóhannsson heitinn, tekur þátt í Berlinale Special hluta Berlínarhátíðarinnar og verður myndin heimsfrumsýnd þriðjudaginn 25. febrúar. 

Last and First Men, sem var leikstýrt af Jóhanni, byrjaði sem kvikmynda- og tónverk byggt á samnefndri vísindaskáldsögu eftir Olaf Stapledon og fjallar um mannkyn framtíðar. Verkið var frumflutt með lifandi tónlist á Manchester Festival árið 2017. 

Framleiðendur kvikmyndarinnar eru Jóhann Jóhannsson, Þórir S. Sigurjónsson og Sturla Brandth Grøvlen fyrir Zik Zak Filmworks og með sölu og dreifingu erlendis fer Films Boutique (gabor@filmsboutique.com).

Gyða Valtýsdóttir tilnefnd til Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunanna

Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin fara fram í Berlín dagana 23. - 24. febrúar. Þar hefur tónlist Gyðu Valtýsdóttur við kvikmyndina Undir halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússon verið valin sem framlag Íslands til Hörpu verðlaunanna, sem eru árlega veitt einu tónskáldi af Norðurlöndunum. Verðlaunaafhendingin fer fram mánudaginn 24. febrúar.

Síðastliðinn október hlaut Gyða tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í Svíþjóð. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Gyða Valtýsdóttir hafi ekki einskorðað sig við neina tiltekna tónlistarstefnu, þrátt fyrir að vera menntuð í sígildri tónlist. „Ung að árum var hún einn stofnmeðlima hinnar rómuðu tilraunakenndu rafsveitar Múm. Síðan þá hefur hún verið áberandi sem fjölhæfur flytjandi í flokki þess íslenska tónlistarfólks sem hefur getið sér gott orð á erlendri grund.“

Shooting Stars

Einn af aðalleikurum kvikmyndarinnar Undir halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússon, hinn eistneski Pääru Oja, var valinn sem hluti af Shooting Stars hópnum fyrir árið 2020. 

Mihkel_1582533074846

Á hverju ári velja European Film Promotion (EFP) samtökin tíu unga og efnilega leikara og leikkonur, úr hópi aðildarlanda samtakana, sem hafa vakið sérstaka athygli í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi og er hópurinn kynntur sérstaklega á Berlinale kvikmyndahátíðinni. 

Co-pro series

Verkefni Óskars Jónassonar, Signals, er eitt af tíu verkefnum í þróun sem taka þátt í Berlinale Co-Pro Series. Verkefnið verður kynnt fyrir fagaðilum á Berlínarhátíðinni þar sem leit stendur yfir að alþjóðlegum dreifingaraðila.

8898a833-51f2-4a26-b577-dda73b6f69af

Leikstjóri Signals er Óskar Jónasson og handritshöfundar eru Óskar Jónasson, Margrét Örnólfsdóttir, Sjón og Jóhann Ævar Grímsson. Yfirframleiðandi er Kjartan Þór Þórðarsson fyrir Sagafilm.

Nánari upplýsingar um Berlínarhátíðina má finna á heimasíðu hennar