Um KMÍ
Á döfinni

5.7.2021

Ísland á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes

Frumraun Valdimars Jóhannssonar, Dýrið, tekur þátt í Un Certain Regard keppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes en þrjár aðrar myndir þar sem Íslendingar gegna lykilstöðu eru einnig hluti af aðaldagskránni. Brasilíska/íslenska stuttmyndin Ágústhiminn (Céu De Agosto) keppir í stuttmyndahluta hátíðarinnar, danska stuttmyndin Frjálsir menn (Frie mænd) keppir í Cinéfondation flokknum og kvikmyndin Flag Day eftir Sean Penn er í aðalkeppni hátíðarinnar, en Valdís Óskarsdóttir klippti þá mynd.    


Un Certain Regard


IFC0107_frettabref_merki5

Sauðfjárbændurnir María (Noomi Rapace) og Ingvar (Hilmir Snær Guðnason) búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu.

Dýrið - frumsýnd 13. júlí á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Leikstjóri  Valdimar Jóhannsson
Handritshöfundar Sjón, Valdimar Jóhannsson
Framleiðendur Hrönn Kristinsdóttir, Sara Nassim
Meðframleiðendur Piodor Gustafsson, Erik Rydell, Klaudia
Smieja-Rostworowska, Jan Naszewski
Framleiðslufyrirtæki Go to Sheep, Black Spark Film & TV, Madants
Meðframleiðslufyrirtæki Film i Väst, Chimney Sweden, Chimney Poland,
Rabbit Hole Productions, Helgi Jóhannsson

Aðalhlutverk Noomi Rapace, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson, Ingvar E. Sigurðsson


Ísland/Svíþjóð/Pólland
2021, 106 min., DCP

Alþjóðleg sala og dreifing New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com)


Aðalkeppni stuttmynda


Brasilíska/íslenska stuttmyndin Ágústhiminn (Céu De Agosto) er ein af 10 stuttmyndum sem valdar voru í aðalkeppni stuttmynda. Leikstjóri myndarinnar er Jasmin Tenucci frá Brasilíu, en myndin er framleidd af Kára Úlfssyni og klippt af Brúsa Ólasyni. Myndin kemur úr samstarfi þeirra Kára og Brúsa við Jasmin sem samnemendur við Columbia háskólann í New York. 

Ágústhiminn fjallar um þann 19. ágúst, 2019 þegar dagur breyttist í nótt í Sao Paulo út af skógareldum í Amazon frumskógi. Fylgst er með hinni óléttu Luciu sem á erfitt með að fæða barn í þennan deyjandi og vonlausa heim. Hún vefst inn í vafasaman trúarhóp sem veitir henni hlýju og samfélag sem hana vantar, þó að allt sem trúarhópurinn stendur fyrir fari gegn hennar skoðunum.

Ágústhiminn - frumsýnd 16. júlí á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes.

CDA_Still_1


Cinéfondation


Stuttmyndin Frjálsir menn (Frie mænd) keppir í Cinéfondation flokki hátíðarinnar en myndin er útskriftarmynd Óskars Kristins Vignissonar frá Danska kvikmyndaskólanum. Cinéfondation sýnir á ári hverju 20 útskriftarmyndir frá kvikmyndaskólum um allan heim og er flokkurinn hluti af opinberu vali hátíðarinnar. Frjálsir menn er gamanmynd um tvo góða vini sem lenda í vandræðum í starfi sínu. Það neyðir þá til að hugsa upp á nýtt hvað frelsi merkir. Óskar Kristinn leikstýrir og skrifar einnig handritið að myndinni í samvinnu við Sune Kofod Maglegaard. 

Frjálsir menn - frumsýnd 14. júlí á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes.

FRIE-MAEND_Still_5


Valdís Óskarsdóttir, klippari kvikmyndarinnar Flag Day


Valdís Óskarsdóttir sá um að klippa kvikmyndina Flag Day eftir Sean Penn sem er í aðalkeppni Cannes hátíðarinnar. Valdís hefur unnið með mörgum fremstu leikstjórum okkar tíma eins og Harmony Korine (Mister Lonely and Julien Donkey Boy), Gus Van Sant (Finding Forrester), Sergei Bodrov (Mongol), Thomas Vinterberg (The Celebration and Submarino) og Michel Gondry (Eternal Sunshine of the Spotless Mind sem hún hlaut meðal annars BAFTA-verðlaun fyrir). Hún klippti einnig fyrstu mynd leikarans Ryans Gosling, Lost Rive, og klippti og vann Edduverðlaun fyrir þáttaröðina Fangar í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Sjálf hefur hún síðan leikstýrt tveimur myndum Sveitabrúðkaup og Kóngavegur.


Short Film Corner


Eftirtaldar stuttmyndir verðar sýndar í Short Film Corner hluta Cannes hátíðarinnar. Myndirnar eru hluti af flokknum Cool Shorts from the North sem Scandinavian Films, samtök kvikmyndastofnanna á Norðurlöndunum, standa að.

Frenjan  
Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir

Hin uppskrúfaða og miðaldra Margrét sér kýr á vappi í miðbænum á leiðinni á skrifstofuna. Þegar hún mætir í vinnuna kemur í ljós að hún ein sér þær. Skoplegt kaos tekur við þegar belja birtist í matsalnum.

Drink My Life
Marzibil Sæmundardóttir

Steini er óvirkur alkóhólisti sem tók sig taki er hann eignaðist son með sambýliskonu sinni. Hann vinnur í tveimur vinnum til að ná endum saman en þegar örlögin grípa inn í fer Steini að stíga dans með varhugaverðum dansfélaga.

Af hreinu hjarta
Haukur Björgvinsson

Gunnar og Anna búa í litlu samfélagi sem hverfist um að útrýma ástarsorg með því að allir fái úthlutað nýjum maka á 7 ára fresti í Ástarlottóinu. Líf án ástarsorgar virðist sem himnaríki á jörðu en dystópískur raunveruleikinn blasir við þegar Gunnar og Anna verða ástfanginn upp fyrir haus og standa frammi fyrir úthlutun á nýjum maka.


Nýjar íslenskar myndir & verk í vinnslu


Íslensk kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla kemst aftur á skrið eftir heimsfaraldurinn og megum við búast við ýmsu nýju íslensku efni, kvikmyndum, þáttum og heimildamyndum, á næstunni.

Kvikmyndamiðstöð Íslands heldur úti gagnagrunni þar sem er að finna upplýsingar um íslenskar kvikmyndir og íslenska kvikmyndagerðarmenn. Nýjustu íslensku myndirnar má til að mynda finna hér.

Skoða nánar verk í framleiðslu hér.
Skoða nánar verk í þróun hér.
Skoða nánar öll verk sem eru í vinnslu hér.