Um KMÍ
Á döfinni
  • Draken_GFF_logotype_srgb

18.1.2019

Íslenskar myndir á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg verður haldin dagana 25. janúar til 4. febrúar og fer nú fram í 42. skipti. Hátíðin, sem er sú stærsta á Norðurlöndunum sýnir rúmlega 400 myndir frá yfir 70 löndum á hverju ári. 

Alls verða 8 myndir frá Íslandi á hátíðinni í ár; heimildamyndin Litla Moskva; kvikmyndirnar Tryggð og sænsk/íslenska Vesalings elskendur; sjónvarpsþátturinn Flateyjargátan; og work-in-progress verkefnin Hvítur, hvítur dagur, Héraðið, Bergmál og danska/íslenska Goðheimar.

Litla Moskva eftir Grím Hákonarson, keppir um Drekaverðlaunin fyrir bestu norrænu heimildamyndina og er hún ein af átta norrænum myndum sem keppa um verðlaunin.

Kvikmyndin Tryggð eftir Ásthildi Kjartansdóttur mun taka þátt Nordic Light sýningarröð hátíðarinnar, og verður það alþjóðleg frumsýning myndarinnar.  

Margrét Örnólfsdóttir er tilnefnd til Nordisk Film og TV Fond verðlaunana fyrir besta handrit sjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum fyrir sjónvarpsþáttaröðina Flateyjargátan. Verðlaunin eru veitt þann 30. janúar á Gautaborgarhátíðinni og er Margrét á meðal sex handritshöfunda sem tilnefndir eru.

Sænsk/Íslenska kvikmyndin Vesalings elskendur eftir Maximilian Hult verður sýnd sem hluti af sérstökum fókus um norrænar gamanmyndir.

Að lokum eru þrjú íslensk verkefni og ein íslensk minnihlutaframleiðsla í eftirvinnslu sem munu taka þátt í Work in Progress hluta hátíðarinnar; Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason, Héraðið eftir Grím Hákonarson, Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson og Goðheimar eftir Fenar Ahmad. 

Allar nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu þeirra.