Um KMÍ
Á döfinni

25.10.2017

Íslenskar kvikmyndir á Tallinn Black Nights Film Festival - alþjóðafrumsýning Sumarbarna

Alþjóðafrumsýning á kvikmyndinni Sumarbörn mun fara fram á Tallinn Black Nights Film Festival (PÖFF) sem fer fram dagana 23. nóvember - 3. desember í Tallinn, Eistlandi. Hátíðin er lykilhátíð Eystrasaltslandanna og ein stærsta hátíðin í norðaustanverðri Evrópu. PÖFF sýnir á þriðja hundrað kvikmyndir víðsvegar að og yfir 80 þúsund gestir sækja hana hverju sinni. 

Myndin keppir í flokki sem tileinkaður er fyrstu kvikmyndum leikstjóra í fullri lengd. Guðrún Ragnarsdóttir, sem leikstýrir og skrifar handritið að Sumarbörnum mun fylgja myndinni eftir til Tallinn á heimsfrumsýningu myndarinnar þann 24. nóvember.

Myndin var frumsýnd hérlendis í október í Bíó Paradís og er í sýningu víðsvegar um landið. 

Sumarbörn segir frá systkinunum Eydísi og Kára, sem eru send til sumardvalar á afskekkt barnaheimili vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.

Myndin er framleidd af Önnu Maríu Karlsdóttur og Hrönn Kristinsdóttur fyrir Ljósband og meðframleidd af Egil Ødegård fyrir norska framleiðslufyrirtækið Filmhuset Fiction.

Svanurinn, sem er fyrsta kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, verður einnig sýnd á Tallinn Black Nights Film Festival. Myndin verður í Forum section sem er ekki keppnishluti hátíðarinnar. Myndin var heimsfrumsýnd á Toronto kvikmyndahátíðinni í Kanada í september.  

Ása Helga Hjörleifsdóttir skrifar einnig handritið að Svaninum, sem er byggð á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Myndin er framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Hlín Jóhannesdóttur fyrir Vintage Pictures á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Þýskalandi og Eistlandi.