Um KMÍ
Á döfinni

18.1.2018

Íslenskir listamenn í opinberri dagskrá Berlínarhátíðarinnar

Adam, þýsk kvikmynd eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur, hefur verið valin til þátttöku í Generation hluta kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Þá er íslenski leikarinn Tómas Lemarquis í aðalhlutverki rúmensku kvikmyndarinnar Touch Me Not eftir Adina Pintilie, sem hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni hátíðarinnar.

Adam

María Sólrún leikstýrir og skrifar handritið að Adam og framleiðir myndina ásamt Jim Stark og syni sínum Magnúsi Maríusyni sem jafnframt fer með aðalhlutverkið.

Um er að ræða aðra kvikmynd Maríu Sólrúnar í fullri lengd. Fyrri mynd hennar, Jargo frá árinu 2004, var einnig valin til þátttöku á Berlínarhátíðinni það ár.

Söguþráður Adam: Eftir margra ára drykkjusýki og fíkniefnaneyslu biður tekknó-tónlistarkona heyrnarlausan son sinn um tvítugt að lofa sér að hann muni aldrei láta loka hana varanlega inni á stofnun. Adam verður ástfanginn af rúmenskri stúlku, en hún er barnshafandi eftir fyrra samband og stuttu síðar er móðir hans greind með heilaskemmdir, sem leiðir til þess að hann þarf að taka ákvörðun um það hvort hann standi við loforðið og hjálpi henni að deyja í staðinn.

Rétt er að taka fram að María Sólrún starfar sem kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Myndin var alfarið unnin erlendis og án tengsla við íslenska kvikmyndagerð og átti Kvikmyndamiðstöð eða starfsfólk hennar enga aðkomu að myndinni hvorki á framleiðslustigi eða við kynningar.

Tómas Lemarquis

Adina Pintilie leikstýrir og skrifar handritið að Touch Me Not, sem er hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd.

Touch Me Not kannar nánd og skorar þar á hólm fyrirframgefnar hugmyndir fólks um fyrirbrigðið. Myndin fjallar um hvernig fólk getur snert hvert annað með ólíkum hætti. Raunveruleika og tilbúningi er blandað saman þar sem nokkrum persónum er fylgt eftir í leit þeirra að nánd.

Tómas Lemarquis skaust fram á sjónarsviðið þegar hann lék titilhlutverkið í kvikmynd Dags Kára, Nóa albínóa, árið 2003. Síðan þá hefur hann leikið í myndum á við Blade Runner: 2049, X-Men: Apocalypse, 3 Days to Kill og Snowpiercer. Árið 2009 lék Tómas aðalhlutverkið í íslensku kvikmyndinni Desember og í mars á þessu ári verður kvikmyndin Halastjarnan frumsýnd, þar sem hann leikur eitt aðalhlutverkanna. Auk þess hefur hann leikið stór hlutverk í evrópskum kvikmyndum og þáttaröðum, þar á meðal frá Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku og Spáni.

Kvikmyndahátíðin í Berlín mun fara fram frá 15. – 25. febrúar næstkomandi.