Um KMÍ
Á döfinni

29.11.2017

Jóhann Jóhannsson tilnefndur til Grammy verðlauna

Tónskáldið Jóhann Jóhannsson hefur verið tilnefndur til Grammy verðlauna í flokki kvikmyndatónlistar, fyrir frumsamda tónlist sína í kvikmyndinni Arrival, sem er leikstýrt af Denis Villeneuve. Grammy verðlaunin munu fara fram þann 28. janúar á næsta ári.

Tilnefningin er gífurlegur heiður fyrir Jóhann og enn ein rósin í hnappagat hans. Jóhann hefur áður verið tilnefndur til Grammy verðlauna í sama flokki, árið 2016 fyrir tónlist sína í The Theory of Everything.

Á Grammy verðlaununum mun Jóhann etja kappi gegn Ramin Djawadi fyrir Game of Thrones (Seríu 7), Hans Zimmer fyrir Dunkirk, Benjamin Wallfisch, Pharrell Williams og Hans Zimmer fyrir Hidden Figures og Justin Hurwitz fyrir La La Land.

Allar tilnefningar til Grammy verðlaunanna árið 2018 er að finna á heimasíðu Grammy verðlaunanna.

Jóhann hlaut fyrr á árinu tilnefningu til Golden Globe verðlauna og BAFTA verðlauna fyrir frumsamda tónlist sína í Arrival.

Fyrir tónlist sína í The Theory of Everything hlaut Jóhann Golden Globe verðlaun ásamt því að hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna, áðurnefnda Grammy tilnefningu og tilnefningu til BAFTA verðlauna. Áður hefur Jóhann t.a.m. samið tónlistina fyrir tvær af fyrri myndum Denis Villeneuve; Prisoners og Sicario. Jóhann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna og tilnefningu til BAFTA verðlauna fyrir frumsamda tónlist sína í Sicario.

Jóhann samdi tónlistina fyrir íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð. Þá hefur hann samið tónlistina fyrir íslensku kvikmyndirnar Íslenski draumurinn, Maður eins og ég, Dís og Blóðbönd, ásamt stuttmyndinni Bræðrabylta og sjónvarpsþáttunum Svartir englar.