Um KMÍ
Á döfinni

19.10.2018

Jóhann Jóhannsson valinn besta kvikmyndatónskáldið á World Soundtrack verðlaunaafhendingunni

Jóhann Jóhannsson heitinn var valinn besta kvikmyndatónskáldið á World Soundtrack verðlaunaafhendingunni, sem fóru fram þann 18. október. Verðlaunin hlaut hann fyrir frumsamda tónlist sína í kvikmyndunum Mandy, The Mercy og Mary Magdalene. Hildur Guðnadóttir, tónskáld og samstarfskona Jóhanns til fjölda ára, var viðstödd verðlaunaafhendinguna og veitti verðlaununum viðtöku.

Þetta er annað árið í röð sem Jóhann vinnur til þessa verðlauna. Í fyrra vann hann til verðlaunanna fyrir frumsamda tónlist sína í Óskarsverðlaunamyndinni Arrival.

Á löngum ferli sínum var Jóhann tvisvar sinnum tilnefndur til Óskarsverðlauna; árið 2015 fyrir The Theory of Everything og árið 2016 fyrir Sicario. Auk þess vann hann til Golden Globe verðlauna árið 2015 fyrir The Theory of Everything og var tilnefndur árið 2017 fyrir Arrival. Jóhann var tilnefndur til BAFTA verðlauna þrjú ár í röð frá 2015-2017; fyrir The Theory of Everything, Sicario og Arrival. Einnig var hann tilnefndur til Grammy verðlauna; árið 2016 fyrir The Theory of Everything og árið 2018 fyrir Arrival.

Hann vann til fjölda annarra verðlauna, þar á meðal Edduverðlauna árið 2016 fyrir bestu tónlist í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð, ásamt Hildi Guðnadóttur og Rutger Hoedemaekers.

Þess má geta að Mandy, ein af myndunum þremur sem Jóhann hlaut verðlaun sín fyrir á World Soundtrack verðlaunaafhendingunni, er nú í sýningum í Bíó Paradís.