Um KMÍ
Á döfinni

21.8.2018

Kona fer í stríð framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018 – Vetrarbræður framlag Danmerkur

Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson er sú íslenska kvikmynd sem tilnefnd er til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og keppir þar með við fjórar aðrar myndir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Framlag Danmerkur er hin dansk/íslenska Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent við hátíðlega athöfn þann 30. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló.

Kona fer í stríð er nú í sýningum í Bíó Paradís og Háskólabíói en einnig verður hægt að sjá allar fimm tilnefndu myndirnar í Bíó Paradís dagana 19. - 21. október.

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum og vann þar til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Myndin verður sýnd á Toronto kvikmyndahátíðinni í byrjun september.

Vetrarbræður hefur unnið til 18 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni í Sviss í ágúst 2017, þar sem fjögur verðlaunanna unnust. Myndin hefur einnig unnið til níu Robert verðlauna og tvennra Bodil verðlauna í Danmörku.

Í fyrra vann finnska kvikmyndin Little Wing eftir Selma Vilhunen til verðlaunanna. Árið 2015 vann Fúsi eftir Dag Kára til verðlaunanna og árið áður varð Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson fyrsta íslenska kvikmyndin til að vinna til verðlaunanna.

Hér með er tilkynnt um kvikmyndirnar fimm sem eru tilnefndar til hinna eftirsóttu Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Allar eru kvikmyndirnar framúrskarandi í alþjóðlegu samhengi og hafa þegar unnið til verðlauna á stærstu kvikmyndahátíðum í Evrópu og víðar.

Í íslensku dómnefndinni sátu Hilmar Oddsson, Helga Þórey Jónsdóttir og Börkur Gunnarsson.

Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, sem hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða tæplega 6 milljónir íslenskra króna, er mynd sem er runnin undan rifjum Norrænnar menningar og af miklum listrænum gæðum. Hún verður einnig að vera framúrskarandi hvað varðar listrænan frumleika og flétta saman á fágaðan máta undirstöðuatriðum kvikmyndalistarinnar svo úr verði sannfærandi heild. Að mati dómnefnda hafa þær fimm myndir sem tilnefndar eru að þessu sinni til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs einmitt þessa kosti til að bera, en myndirnar fimm eru (nánari upplýsingar um hverja mynd undir meðfylgjandi hlekkjum):

Kona fer í stríð – Ísland

Leikstjóri er Benedikt Erlingsson, handritshöfundar eru Benedikt Erlingsson og Ólafur Egill Egilsson og framleiðendur eru Marianne Slot, Benedikt Erlingsson og Carine Leblanc.

https://vimeo.com/267209083

Halla er á fimmtugsaldri og sjálfstæð. Fljótt á litið virðist líf hennar rólyndislegt, en í raun er hún virkur aðgerðasinni sem brennur fyrir umhverfismálum og hefur upp á sitt einsdæmi sagt áliðnaði á Íslandi leynilegt stríð á hendur. Halla er að undirbúa stærstu og djörfustu aðgerð ferils síns þegar henni berst óvænt bréf sem breytir öllu. Umsókn hennar um að ættleiða barn hefur verið samþykkt og hennar bíður nú lítil stúlka í Úkraínu. Fréttirnar verða til þess að Halla ákveður að binda enda á feril sinn sem spellvirki og bjargvættur hálendisins og láta draum sinn um móðurhlutverkið rætast. Áður en að því kemur skipuleggur hún þó eina lokaárás á áliðnaðinn.

Vetrarbræður – Danmörk

Leikstjóri/handritshöfundur er Hlynur Pálmason og framleiðendur eru Julie Waltersdorph Hansen, Per Damgaard Hansen og Anton Máni Svansson.

https://www.youtube.com/watch?v=m0RaGwzqLBE

Vetrarbræður er saga tveggja bræðra í kalknámubæ á köldum vetri. Yngri bróðirinn, Emil, bruggar landa úr hráefni sem hann hnuplar í verksmiðjunni. Hann er sérvitur og utanveltu, en er umborinn af hinum námuverkamönnunum sakir eldri bróður síns, Johans. Emil þráir að njóta hylli og ástar. Þegar einn af verkamönnunum veikist beinist grunur samstundis að Emil og brugginu hans. Smám saman brjótast út átök milli Emils og hins nána samfélags námuverkamannanna. Um leið finnst Emil hann svikinn þegar hann kemst að því að Anna, konan sem hann dreymir um, er hrifin af bróður hans.

Armomurhaaja – Finnland

https://vimeo.com/238713199

Veijo Haukka er fimmtugur bifvélavirki sem hefur aukatekjur af því að svæfa gömul og veik gæludýr. Smærri dýr kæfir hann með bílaútblæstri og þau stærri skýtur hann með skammbyssunni sinni. Þrátt fyrir þennan nöturlega starfa er Veijo sannur dýravinur. Markmið hans er að líkna dýrum og forða þeim frá þjáningu. Hann er þó ekki eins miskunnsamur í garð gæludýraeigenda og refsar þeim hiklaust sem hafa farið illa með dýrin sín sökum heimsku eða sjálfselsku.

Leikstjóri/handritshöfundur er Teemu Nikki og framleiðendur eru Jani Pösö og Teemu Nikki.

Thelma – Noregur

Leikstjóri er Joachim Trier, handritshöfundar eru Eskil Vogt og Joachim Trier og framleiðendur eru Eili Harboe, Kaya Wilkins og Henrik Rafaelsen.

https://vimeo.com/228738693

Thelma er hlédræg ung stúlka úr smábæ á vesturströnd Noregs sem hefur nýlega yfirgefið heittrúaða fjölskyldu sína til að stunda háskólanám í Ósló. Dag einn á bókasafninu fær hún skyndilega ofsafengið flogakast. Í kjölfarið uppgötvar Thelma að hún laðast sterklega að einum samnemenda sinna, hinni fögru Önju, sem endurgeldur hrifningu hennar. Thelma þorir ekki að gangast við tilfinningum sínum gagnvart Önju, ekki einu sinni í einrúmi, en þegar líður á önnina verður hrifningin æ meira yfirþyrmandi um leið og flogaköstin halda áfram og færast í aukana. Brátt kemur á daginn að flog Thelmu stafa af óútskýranlegum – og oft varasömum – yfirnáttúrulegum hæfileikum sem hún býr yfir. Áður en yfir lýkur þarf hún að takast á við hörmuleg leyndarmál úr fortíð sinni og þá skuggahlið sem fylgir kröftum hennar.

Korparna – Svíþjóð

Leikstjóri/handritshöfundur er Jens Assur og framleiðendur eru Jan Marnell, Tom Persson og Jens Assur.

https://www.youtube.com/watch?v=VXAxrmuwuC8

Sögusviðið er sænskt bóndabýli á áttunda áratug síðustu aldar. Agne er bóndi í dreifbýli þar sem íbúum fer stöðugt fækkandi. Bústörfin valda honum ama og hann er haldinn þráhyggju gagnvart því að elsti sonurinn Klas taki við býlinu, svo og nagandi grun um að einhver vilji vinna fjölskyldunni mein. Klas er 15 ára. Hann dreymir um að komast langt burt frá búskapnum og er heillaður af veröld fuglanna. Þegar utanaðkomandi hættur steðja að og samviskubitið segir æ sterkar til sín stendur Klas frammi fyrir óumflýjanlegu vali milli frelsis og uppgjafar.

Á heimasíðu Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs má lesa frekar um verðlaunin og kynna sér tilnefndu kvikmyndirnar nánar.