Um KMÍ
Á döfinni

30.10.2018

Kona fer í stríð hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018

Kona fer í stríð undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar vann Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018, sem voru veitt í Osló í kvöld. Þetta er í þriðja sinn sem íslenskri kvikmynd hlotnast þessi heiður og í annað sinn sem Benedikt Erlingsson vinnur verðlaunin. Ísland hefur nú unnið þrisvar til verðlaunanna á síðustu fimm árum.

Benedikt deilir verðlaununum með meðhöfundi sínum, Ólafi Egilssyni, og framleiðendum myndarinnar, hinum frönsku Marianne Slot og Carine Leblanc. Öll voru þau viðstödd verðlaunaafhendinguna sem fram fór í Osló í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu er sem hér segir:

„Í Kona fer í stríð er alvarlegum og brýnum vanda miðlað gegnum sterkan persónuleika sem gefst ekki upp. Halla, konan sem tekur lögin í sínar hendur til að vernda vistkerfi jarðarinnar, er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur sem sýnir afburðagóða og agaða frammistöðu. Þegar Halla verður þess vör að eitthvað togar sterkar í hana en hugsjónirnar, nefnilega löngunin til að stofna fjölskyldu, er það sett fram á íhugulan hátt og án tilfinningasemi. Raunar má segja að Benedikt Erlingsson, sem leikstýrði myndinni og skrifaði einnig handrit ásamt Ólafi Egilssyni, sýni jafnmikla dirfsku og aðalpersóna myndarinnar. Dómnefndin kann vel að meta það sjálfsöryggi sem Benedikt sýnir þegar hann fléttar sérstöku andrúmslofti framandgervingar inn í spennuþrungin atriði og innileg augnablik með því að hafa lifandi tónlistarflutning í mynd og láta hljóðfæraleikarana túlka skap- og tilfinningasveiflur persónanna. Útkoman er frábær kvikmynd sem er leiftrandi skemmtileg í meðferð sinni á hápólitísku viðfangsefni, svo og einkalífi 48 ára gamallar konu sem er hin óvænta hasarhetja myndarinnar. Og ástin sem liggur til grundvallar frásögninni – ástin á náttúrunni og ást á umkomulausu barni – skín í gegnum allt saman.“

Kona fer í stríð, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla, var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum og vann þar til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Myndin hefur samtals unnið til átta alþjóðlegra verðlauna og hefur tekið þátt á fjölda virtra kvikmyndahátíða, þar á meðal alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í Suður Kóreu.

Myndin er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári og er fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta tilnefningu til LUX verðlauna Evrópuþingsins. Hún er  einnig í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.

Með sölu og dreifingu erlendis fer sölufyrirtækið Beta Cinema (thorsten.ritter@betacinema.com).

Um Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Þetta er í 15. sinn sem verðlaunin eru veitt kvikmynd sem hefur vakið athygli fyrir gæði og sterka skírskotun til listrænnar hefðar á Norðurlöndum. Tvisvar áður hefur íslensk kvikmynd hlotið verðlaunin; Benedikt Erlingsson og Friðrik Þór Friðriksson veittu verðlaununum viðtöku árið 2014 fyrir Hross í oss og Dagur Kári, Agnes Johansen og Baltasar Kormákur veittu þeim viðtöku árið 2015 fyrir Fúsa.

Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða tæplega 6 milljónir íslenskra króna, sem deilist jafnt milli handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda, sem undirstrikar að kvikmynd er listræn afurð náins samstarfs milli þessara lykilstarfsmanna. Sigurvegarinn er mynd sem er runnin undan rifjum Norrænnar menningar og af miklum listrænum gæðum. Hún verður einnig að vera framúrskarandi hvað varðar listrænan frumleika og flétta saman á fágaðan máta undirstöðuatriðum kvikmyndalistarinnar svo úr verði sannfærandi heild.