Um KMÍ
Á döfinni

16.4.2018

Kona fer í stríð valin til þátttöku á Critics‘ Week í Cannes

Kona fer í stríð, nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Benedikts Erlingssonar, hefur verið valin til þátttöku á Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám hinnar virtu Cannes kvikmyndahátíðar, þar sem hún verður heimsfrumsýnd. Critics' Week mun fara fram frá 9. – 17. maí, samhliða hátíðinni. Um mikinn heiður er að ræða, enda Cannes hátíðin ein sú stærsta í heiminum.

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar. Að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum?

Benedikt Erlingsson leikstýrir Konu fer í stríð og skrifar handritið ásamt Ólafi Egilssyni. Í aðalhlutverki er Halldóra Geirharðsdóttir og í öðrum hlutverkum eru Jóhann Sigurðarson, Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen, og Ómar Guðjónsson. Myndin, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla, er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar.

Með sölu og dreifingu erlendis fer Beta Cinema (thorsten.ritter@betacinema.com).

Kona fer í stríð er önnur kvikmynd Benedikts Erlingssonar í fullri lengd á eftir Hross í oss, sem kom út árið 2013 og fór sigurför um heiminn. Hross í oss vann til alls 19 alþjóðlegra verðlauna, þeirra á meðal Norrænu kvikmyndaverðlaunanna árið 2014 og verðlauna á virtum kvikmyndahátíðum á við alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í San Sebastián á Spáni, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Tókýó og Tallinn Black Nights kvikmyndahátíðina í Eistlandi.

Þrjár íslenskar myndir hafa áður tekið þátt í Critics' Week; Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen árið 1992, hin norsk/íslenska Vandræðamaðurinn eftir Jens Lien tók þátt árið 2006 og fransk/íslenska stuttmyndin Víkingar eftir Magali Magistry tók þátt árið 2013.

Arctic, Bergmál og Vargur ­einnig á hátíðinni

Arctic, bandarísk kvikmynd sem er meðframleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Pegasus, verður heimsfrumsýnd á miðnætursýningum hátíðarinnar.

Bergmál, nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar sem er nú í þróun, mun taka þátt á Cannes Atelier, vettvangi fyrir leikstjóra og framleiðendur sem miðar að því að hjálpa því að taka næstu skref í þá átt að koma verkefninu af stað, t.a.m. með því að standa fyrir fundum með mögulegum fjármögnunaraðilum.

Þá verður Vargur, fyrsta kvikmynd Börks Sigþórssonar í fullri lengd sýnd á markaðssýningu á hátíðinni. Vargur verður frumsýnd hér á landi þann 4. maí næstkomandi.