Um KMÍ
Á döfinni

21.8.2018

Kona fer í stríð valin til þátttöku á Toronto kvikmyndahátíðinni

Kona fer í stríð, nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Benedikts Erlingssonar, hefur verið valin til þátttöku á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto. Þar verður hún sýnd í Discovery hluta hátíðarinnar. Um Norður Ameríku frumsýningu myndarinnar er að ræða. Áður hafði verið tilkynnt um þátttöku kvikmyndarinnar Lof mér að falla og stuttmyndanna Viktoríu og To Plant a Flag á hátíðinni, sem fer fram frá 6. – 16. september.

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum og vann þar til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Myndin hefur síðan þá tekið þátt á kvikmyndahátíðinni í Sydney, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni La Rochelle í Frakklandi og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Melbourne.

Myndin var nýverið tilnefnd til LUX verðlauna Evrópuþingsins og varð þar með fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta tilnefningu.

https://vimeo.com/267209083

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar. Að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum?

Benedikt Erlingsson leikstýrir Kona fer í stríð og skrifar handritið ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Myndin, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla, er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Með aðalhlutverkið fer Halldóra Geirharðsdóttir og í öðrum hlutverkum eru Jörundur Ragnarsson, Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson og Jóhann Sigurðarson. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar.