Um KMÍ
Á döfinni

12.10.2018

Kona fer í stríð vann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Hamborg

Kona fer í stríð, kvikmynd Benedikts Erlingssonar, vann til Art Cinema verðlaunanna á kvikmyndahátíðinni í Hamborg í Þýskalandi. Art Cinema verðlaunin eru ein þau stærstu sem eru veitt á hátíðinni og fela í sér 5000 evru peningaverðlaun. Þetta eru fimmtu alþjóðlegu verðlaunin sem myndin hlýtur.

Dómnefnd hafði eftirfarandi að segja um veitingu verðlaunanna:

„Halla sinnir kór sínum af ástúð. Í skjóli nætur stendur hún hins vegar fyrir leynilegum árásum á orkuveitur landsins til að reyna að koma í veg fyrir misnotkun á því í gróðraskyni. Umsókn hennar um að ættleiða barn, ferli sem er óvenju jákvætt og lágstemmt, ásamt auknu eftirliti yfirvalda verða þess valdandi að hún þarf að bregðast hraðar og sterkar við breyttum aðstæðum. Á meðal þess sem hreif okkur var sterk framsetning Höllu, handritið – sérstaklega snjöll notkun þess á táknum – og óhefðbundin frumsamin tónlist, sem ýtir ekki bara undir hljóðheiminn heldur einnig myndheiminn.“

Kona fer í stríð var nýverið valin sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Hún var einnig tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og er fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta tilnefningu til LUX verðlauna Evrópuþingsins. Hún er  einnig í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum og vann þar til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Myndin hefur síðan þá tekið þátt á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, kvikmyndahátíðinni í Sydney, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni La Rochelle í Frakklandi og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Melbourne.

Með sölu og dreifingu erlendis fer sölufyrirtækið Beta Cinema (thorsten.ritter@betacinema.com).