Um KMÍ
Á döfinni

26.2.2019

Konur í kvikmyndagerð eru í brennidepli á árlegu kvikmyndahátíðinni Nordatlantiske Filmdage í Kaupmannahöfn

Ísold Uggadóttir, Guðný Halldórsdóttir, Ása Helga Hjörleifsdóttir, Elsa María Jakobsdóttir og Valdís Óskarsdóttir eru allar á leið á kvikmyndahátíðina Nordatlantiske Filmdage í Kaupmannahöfn sem fer fram dagana 1.-9. mars.

Konur í kvikmyndagerð eru í brennidepli á árlegu kvikmyndahátíðinni Nordatlantiske Filmdage sem á sér stað í lista- og menningarmiðstöðinni Nordatlantens Brygge í hjarta Kaupmannahafnar.

Ísold Uggadóttir sýnir Andið eðlilega á opnun hátíðarinnar 1. mars, en einnig verða sýndar kvikmyndirnar Ungfrúin góða og húsið eftir Guðnýju Halldórsdóttur, Svanurinn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, stuttmyndin Atelier eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur og kvikmyndin Sveitabrúðkaup eftir Valdísi Óskarsdóttur.

Á boðstólnum verða líka pallborðsumræður, en einnig verður boðið upp á Masterclass med Valdísi Óskarsdóttur þar sem hún ræðir feril sinn við dönsku kvikmyndablaðakonuna Nönnu Frank Rasmussen.

Á hátíðinni verður líka að finna kvikmyndir frá Færeyjum og Grænlandi, en hátíðin stendur fram til 9. mars.

Norðurbryggja (NordatlantensBrygge) stendur að hátíðinni í samstarfi við m.a. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Kvikmyndamiðstöð Íslands og með stuðningi frá Nordisk Kulturfond, Nordens Institut i Grønland og Det Danske Filminstitut.

Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á www.nordatlantens.dk/filmdage