Um KMÍ
Á döfinni

22.2.2018

Kvikmyndahátíð í Kaupmannahöfn fagnar dönsku og íslensku kvikmyndasamstarfi

Í samstarfi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn fagnar kvikmyndahátíðin Nordatlantiske Filmdage fullveldisafmæli Íslands með því að beina ljósinu að kvikmyndasamstarfi Íslands og Danmerkur til 100 ára.

Á hátíðinni verður stiklað á stóru og m.a. hægt að sjá íslenska kvikmynd danska leikstjórans Erik Balling, 79 af stöðinni (1962), danska kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Vetrarbræður (2017) og Atelier (2017), útskriftarmynd Elsu Maríu Jakobsdóttur frá Danska kvikmyndaskólanum.

Á hátíðina koma líka kvikmyndaleikstjórarnir Friðrik Þór Friðriksson, Rúnar Rúnarsson og Dagur Kári, sem allir hafa starfað bæði í Danmörku og á Íslandi, og sýna myndir þeirra glöggt styrkinn sem felst í samstarfi landanna á milli. Ýmislegt annað verður líka í boði, og má þar nefna heimildarmynd Höllu Kristínar Einarsdóttur um kvennabaráttuna á Íslandi, Hvað er svona merkilegt við það? (2015).

Kvikmyndahátíðin verður haldin 1. - 8. mars á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, og hefst hún með kvikmyndinni Undir trénu (2017). Handritshöfundur kvikmyndarinnar, Huldar Breiðfjörð, mun kynna myndina í kjölfar opnunarræðu sendiherra Íslands í Danmörku, Benedikts Jónssonar.

Meðal stuðningsmanna hátíðarinnar og samstarfsaðila má nefna Dönsku Kvikmyndastofnunina, Kvikmyndasafn Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn.

Bækling kvikmyndahátíðarinnar Nordatlantiske Filmdage má nálgast hér.