Um KMÍ
Á döfinni

26.10.2018

Kvikmyndaklúbburinn Í myrkri stendur fyrir kvikmyndasýningum í vetur – fyrsta sýning 1. nóvember

Kvikmyndaklúbburinn Í myrkri mun í vetur standa fyrir kvikmyndasýningum í Kling & Bang, sem er staðsett á annarri hæð Marshall hússins að Grandagarði 20, 101 Reykjavík. Fyrsta sýning mun fara fram þann 1. nóvember klukkan 20. Sýndar verða heimildamyndirnar Salóme eftir Yrsu Roca Fannberg og hin spænska El Sastre eftir Óscar Pérez.

Salóme
Eftir Yrsu Roca Fannberg
(2014) 58 mín.

Salóme - stikla
Listin var mikilvægur hluti æsku minnar og á meðan mamma vefaði eyddi ég mörgum stundum og fylgdist með henni í gegnum þræðina. Í dag er ég komin til Íslands til að fylgjast með henni í annað sinn – til að kvikmynda hana. Við höfum ekki búið undir sama þaki síðan ég var unglingur. Sjálf er ég barnlaus, með þann draum heitastan að búa til bíó. Mamma hefur ekki mikinn áhuga á að vera kvikmynduð. Hér takast ekki aðeins á móðir og dóttir, heldur leikstjóri og viðfangsefni með sinn eigin vilja.

Myndin varð fyrsta íslenska heimildamyndin til að vinna hin virtu Nordisk Panorama verðlaun árið 2014.

El Sastre (Klæðskerinn)
Eftir Óscar Pérez
(2007) 32 mín.

El Sastre - stikla
Mohamed, klæðskeri frá Pakistan og Singh, starfsmaður hans frá Indlandi vinna saman í 8 fermetra búð í hjarta Barcelona. Mohamed er oftast í ekkert voða góðu skapi og það eina sem skiptir hann máli er viðskiptin hans og trúarbrögð. Singh er 50 ára innflytjandi sem er tiltölega nýkominn til Barcelona og vinnur ólöglega fyrir mjög lítið. Kvikmyndin skrásetur samskipti þessara ólíku manna sem deila þessu þessu litla rými daginn út og inn. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn á Facebook.

Um kvikmyndaklúbbinn Í myrkri

Boðið verður uppá reglulegar sýningar yfir myrkustu mánuðina - frá jafndægri til jafndægurs - á völdum heimildamyndum og tilraunakenndum kvikmyndum eftir nokkra af áhugaverðustu kvikmyndagerðar- og listamönnum samtímans. Stuttar, langar, hægar, hraðar og alls konar. 

Aðgangur ókeypis en tekið verður á móti frjálsum framlögum gesta. Það sem safnast saman verður nýtt til að greiða fyrir sýningarrétt kvikmyndanna og rennur beint í vasa aðstandenda myndanna. 

Sýningarstjórar Í myrkri eru Yrsa Roca Fannberg, Ragnheiður Gestsdóttir og Þórunn Hafstað, sem allar hafa fengist við heimildamyndaformið á einn eða annan hátt. 

Kaffi, te, popp og fleira gúmmelaði á vægu verði.