Um KMÍ
Á döfinni

24.4.2019

Lilja Ósk Snorradóttir valin til þátttöku á „Producers on the Move“ í Cannes

Framleiðandinn Lilja Ósk Snorradóttir verður fulltrúi Íslands á „Producers on the Move“ í Cannes, sem samtökin European Film Promotion standa fyrir. Hvert hinna 38 aðildarríkja European Film Promotion tilnefnir einn aðila til þátttöku og úr þeim hópi eru 20 valdir og hlotnaðist Lilju sá heiður að vera fulltrúi Íslands að þessu sinni. „Producers on the Move“ fer fram samhliða Cannes kvikmyndahátíðinni sem fer fram dagana 14. – 25. maí.

Lilja Ósk Snorradóttir hefur unnið við kvikmyndagerð í yfir 20 ár, hún er meðeigandi af framleiðslufyrirtækinu Pegasus sem var stofnað árið 1992 en hún byrjaði fyrst að vinna fyrir fyrirtækið árið 1999. Lilja hefur framleitt og meðframleitt myndir og sjónvarpsseríur á borð við Þresti eftir Rúnar Rúnarsson, Arctic undir leikstjórn Joe Penna og Hraunið undir leikstjórn Reynirs Lyngdal. Í dag er Lilja að eftirvinna kvikmyndina Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson ásamt því að vera með nokkur verkefni í þróun.

Framleiðendurnir sem taka þátt í „Producers on the Move“ eiga það sameiginlegt að hafa þegar framleitt mynd sem hefur náð alþjóðlegri dreifingu og setja stefnuna ennfremur á að skapa sér sess á alþjóðlegum vettvangi. Á Producers on the Move skapast einstakt tækifæri til að koma upp tengslaneti með það fyrir augum að fara í evrópskt samstarf.

Producers on the Move er styrkt af Creative Europe - Media áætlun Evrópusambandsins og aðildarlöndum þ.á.m. Íslandi.