Um KMÍ
Á döfinni

17.10.2018

Northern Wave kvikmyndahátíðin fer fram 26. – 28. október

Northern Wave kvikmyndahátíðin verður haldin í 11. sinn dagana 26. – 28. október. Hátíðin mun fara fram í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ. Fjöldi stuttmynda, tónlistarmyndbanda og myndbandsverka verða sýnd á hátíðinni.

Heiðursgestur hátíðarinnar er hinn margreyndi framleiðandi Gale Anne Hurd. Hún framleiðir heimildamyndina Mankiller, sem verður sýnd samtímis í Frystiklefanum og í Bíó Paradís klukkan 20 sunnudaginn 28. október. Hún mun svara spurningum úr sal eftir sýningu á myndinni í Bíó Paradís og verður einnig með meistaraspjall á hátíðinni, sem verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Hurd er eigandi framleiðslufyrirtækisins Valhalla Entertainment og á að baki langan og gjöfulan feril sem framleiðandi í Hollywood. Hún hefur m.a. framleitt sjónvarpsþáttaröðina The Walking Dead og kvikmyndirnar The Terminator, Aliens, Terminator 2 og Armageddon, auk þess að vera meðhöfundur The Terminator.

Valdís Óskarsdóttir klippari og kvikmyndagerðarmaður verður einnig með meistaraspjall á hátíðinni undir yfirskriftinni „Womarts Masterclass with filmmaker Valdís Óskarsdóttir.“ Meistaraspjallið er haldið í samstarfi við WIFT Nordic og Valdís mun þar ræða um feril sinn sem klippara og kvikmyndagerðarmanns. Meistaraspjallið fer fram í Frystiklefanum klukkan 18 á föstudeginum 26. október.

Í dómnefnd hátíðarinnar eru Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona, Ottó Geir Borg handritshöfundur og Nanna Frank Rasmussen gagnrýnandi hjá Jyllands Posten.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina og viðburði hennar er að finna á heimasíðu Northern Wave.