Um KMÍ
Á döfinni

19.10.2023

Þröstur Leó heiðraður á PIFF-kvikmyndahátíðinni

Þresti Leó Gunnarssyni voru veitt heiðursverðlaun PIFF (Pigeon International Film Festival) á föstudagskvöld. Verðlaunin eru þakklætisvottur fyrir framlag hans til leiklistar á Íslandi.

Verðlaunin voru afhent að lokinni kvöldstund á Dokkunni á Ísafirði, þar sem farið var yfir langan feril leikarans. Húsið var fullsetið áhorfendum sem fengu tækifæri til að spyrja leikarann spurninga.

Hátíðin var fyrst haldin 2021 en þetta er í fyrsta sinn sem heiðursverðlaun eru veitt á henni. Finnska kvikmyndin Solar Wind Alley var valin besta kvikmyndin í fullri lengd. Á þriðja tug verðlauna voru veitt á hátíðinni og má nálgast upplýsingar um þau á vef hátíðarinnar.

Hátíðin breiddi úr sér í þremur sveitarfélögum á Vestfjörðum; Ísafirði, Súðavík og Patreksfirði. Fjörutíu og sjö myndir frá 21 landi voru sýndar á hátíðinni og hana sótti fjöldi kvikmyndagerðarfólks sem fylgdi myndunum sínum þar eftir.

Ljósmyndir: Baldur Páll Hólmgeirsson.