Um KMÍ
Á döfinni

9.11.2023

Heimaleikurinn sýnd á stærstu heimildamyndahátíð Bandaríkjanna

Heimildamynd Smára Gunnarssonar og Loga Sigurvinnssonar, Heimaleikurinn, verður sýnd á heimildamyndahátíðinni DOC NYC í Bandaríkjunum. Hátíðin fer fram 9.-16. nóvember og státar sig af því að vera sú stærsta sem sérhæfir sig í heimildamyndum í Bandaríkjunum. 

Myndin verður sýnd á hátíðinni 10. nóvember og keppir þar um verðlaun sem besta alþjóðlega heimildamyndin. Leikstjórarnir sitja fyrir svörum að sýningu lokinni, ásamt Freydísi Bjarnadóttur og Kára Viðarssyni, sem koma bæði fram í myndinni.

Þessi gamansama íþróttaheimildamynd hefur hitt í markið hjá áhorfendum innanlands og utan. Hún hlaut fyrir skemmstu áhorfendaverðlaun á Nordisk Panorama en fyrir hafði hún unnið áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar, þar sem hún var frumsýnd í vor.

Heimaleikurinn fjallar um tilraun manns til að uppfylla draum föður síns um að safna í lið heimamanna og spila langþráðan vígsluleik á fótboltavelli sem hann lét byggja á Hellissandi 25 árum áður.