Um KMÍ
Á döfinni

11.3.2024

Heimaleikurinn fær áhorfendaverðlaun í Glasgow

Íslenska heimildarmyndin Heimaleikurinn var heiðruð á kvikmyndahátíðinni í Glasgow þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun. Verðlaunin voru afhent við lokaathöfn hátíðarinnar, sunnudaginn 10. mars.

Heimaleikurinn var sýnd fyrir fullu húsi tvisvar í Glasgow og skipuleggjendur hátíðarinnar tilkynntu að áhorfendur hefðu samanlagt gefið myndinni 4.8 af 5 í einkunn, hæstu einkunn sem þau hafa séð í tuttugu ára sögu hátíðarinnar sem er ein sú stærsta á Bretlandseyjum.

Mynd: Eoin Carey.

Leikstjórarnir Smári Gunnarsson og Logi Sigursveinsson gengu rauða dregilinn og sátu fyrir svörum eftir sýningarnar. Stjörnur myndarinnar úr liði Reynis á Hellissandi fylgdu myndinni einnig eftir, skoskum kvikmyndagestum til mikillar gleði.

Mynd: Amy Muir.

Áhorfendaverðlaunin eru aðalverðlaun hátíðarinnar og var Heimaleikurinn tilnefnd ásamt sjö öðrum myndum. Myndin var eina heimildarmyndin í flokki tilnefndra en meðal þeirra kvikmynda sem einnig voru tilnefndar var nýjasta mynd Viggo Mortensen The Dead don't Hurt.

Heimaleikurinn er hjartahlý mynd sem fjallar um fljótfærna tilraun Kára Viðarssonar til að uppfylla draum föður síns, að safna í lið heimamanna til að spila langþráðan heimaleik á fótboltavelli sem hann lét byggja á Hellissandi 25 árum áður. Verðlaunin í Glasgow voru styrkt af streymisveitunni MUBI og eru þriðju áhorfendaverðlaun Heimaleiksins, sem hlaut einnig dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu heimildarmyndahátíðinni í Búdapest.