Um KMÍ
Á döfinni

8.4.2024

Green Producers Club opnar skrifstofu á Íslandi

Green Producers Club var stofnaður í Noregi 2018 og hefur síðustu ár verið með skrifstofur í Osló og Kaupmannahöfn. Klúbburinn er fyrir fyrirtæki og stofnanir skapandi greina sem vilja auka samkeppnisforskot sitt með sjálfbærum og grænum lausnum. Meðlimir eru yfir 180 fyrirtæki á Norðurlöndum, meðal annars Norska óperan, Norski ballettinn, NRK, TV2 í Danmörku, Viaplay, framleiðslu-, og þjónustufyrirtæki í kvikmyndagerð ásamt ýmsum tónlistar-, og menningar hátíðum.

Sameiginlegt markmið klúbbmeðlima er að framleiða menningarefni í samræmi við nýja græna staðla og til að draga úr og skrá kolefnislosun. Klúbburinn heldur reglulega fundi þar sem meðlimir koma saman, deila reynslusögum og fá fræðslu til aðstoðar við að uppfylla allar helstu kröfur varðandi sjálfbærni og græn viðmið sem gerð eru til framleiðslu á menningarefni.

Green Producers Club Iceland er þriðja skrifstofa klúbbsins á Norðurlöndum. Skrifstofan opnar opinberlega þriðjudaginn 9. apríl 2024 og verður kynnt nánar í pallborðsumræðum á Stockfish kvikmyndahátíðinni í Norræna Húsinu, kl. 16.30 sama dag.

Hægt er að skrá sig á viðburðinn á vef Stockfish.

Mikill heiður að hýsa Green Producers Club

Gestgjafi klúbbsins á Íslandi er fyrirtækið USE SEE, nýtt ráðgjafafyrirtæki í sjálfbærni lausnum fyrir skapandi greinar, menningarviðburði, sjónvarps- og kvikmyndagerð. 

Elementer-7-

Að fyrirtækinu standa Heather Millard, Karólína Stefánsdóttir og Sigríður Rósa Bjarnadóttir sem allar hafa starfað um nokkurra áratugaskeið innan skapandi greina sem framleiðendur, verkefnastjórar og listrænir stjórnendur. Nýverið fengu þær vottun sem „Green manager International“ og eru með því fyrstu sjálfbærnisstjórar skapandi greina hér á landi eftir þátttöku á námskeiði sem Kvikmyndamiðstöð Íslands stóð að í samstarfi við norrænu kvikmyndasjóðina, Hochschule der Medien Stuttgart og Danska kvikmyndaskólann.

„Það er okkur mikill heiður að fá að hýsa Green Producers Club á Íslandi og mun styrkja stöðu okkar sem ráðgjafar og sjálfbærnistjórar. Klúbburinn fellur vel að ráðgjöf, vinnustofum og annarri fræðslu sem við munum bjóða upp á varðandi umhverfisvæna og sjálfbæra framleiðsluhætti. Þetta er sameiginlegt framtak til að gera norrænu menningarsenuna sjálfbærari.“

Mads Astrup Rønning, einn af stofnendum Green Producers Club, fagnar áfanganum og er sannfærður um að USE SEE sé rétti samstarfsaðilinn. „Þær búa yfir óaðfinnanlegri sérþekkingu til að leiðbeina meðlimum á Íslandi í grænni framleiðslu menningarefnis og stuðla að sjálfbærri verkkunnáttu.“

Kolefnisreiknir fyrir norrænar aðstæður

Green Producer Tool er kolefnisreiknir klúbbsins, hannaður af framleiðendum fyrir framleiðendur. Verkfærið fellur vel að áherslum flestra samkeppnissjóða hér á landi og í Evrópu þar sem gerð er krafa um að verkefni leggi fram sjálfbærniáætlun og skráningu kolefnislosunar. 

Fjárfest hefur verið í kolefnisreikninum fyrir um 2,5 milljón evrur og er fjármagnaður af rannsóknarsjóði Norrænu ráðherranefndarinnar (€800,000) og Creative Europe Innovation Lab, (€1,3 milljón). 

Fyrirtækið Cicero – Centre of International Climate Research stendur á bak við alla útreikninga og er hægt að reikna út yfir 2.000 ólíka losunarþætti. Kolefnisreikninn er gerður fyrir norrænar aðstæður og aðlagað að íslenskum orkugjöfum og er uppfærður reglulega.