Um KMÍ
Á döfinni

22.4.2024

Ljósbrot Rúnars Rúnarssonar verður opnunarmynd Un Certain Regard í Cannes

Nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, hefur verið valin til sýningar í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes 2024. Myndin verður opnunarmynd í Un Certain Regard flokki hátíðarinnar, þar sem kvikmyndum sem sýna listræna djörfung er hampað.

„Það var heill her af hæfi­leika­ríku fólki sem gerði Ljósbrot að veru­leika með dugnaði sín­um og elju. Ég á ekki til orð til að lýsa því hvað ég er stolt­ur af okkur að hafa náð þessum áfanga,“ segir Rúnar.

Ljósbrot gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu. Upphefst þá rússibanaferð tilfinninga, þar sem mörkin milli hláturs og gráts, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr. Með aðalhlutverk í myndinni fer Elín Hall.

Heather Millard, hjá Compass Films, framleiðir myndina ásamt Rúnari. Meðframleiðslufyrirtæki eru hið íslenska Halibut, hollenska Revolver, franska Eaux Vives/Jour2Fête og króatíska MP Film.

Myndin er framleidd með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og endurgreiðslukerfi menningar- og viðskiptamálaráðuneytis . Hún hefur einnig fengið stuðning frá Eurimages, Creative Europe – Media programme, Nordisk Film & TV Fond, hollenska kvikmyndasjóðnum, króatíska kvikmyndasjóðnum auk RÚV og finnska ríkissjónvarpinu, YLE.

The Party Film Sales fer með alþjóðlega sölu og dreifingu á myndinni.

Kvikmyndahátíðin í Cannes verður haldin 14.-25. maí 2024

Ljósbrot er fjórða kvikmynd Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd. Eldfjall, fyrsta kvikmynd Rúnars í fullri lengd, kom út árið 2011, og var frumsýnd í flokknum Director´s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Myndin hlaut 17 alþjóðleg verðlaun á kvikmyndahátíðum. Önnur kvikmynd hans í fullri lengd Þrestir (2015) var valin til þátttöku á fjölmörgum kvikmyndahátíðum og hlaut 20 alþjóðleg verðlaun, þar á meðal Concha de Oro, aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian. Þriðja kvikmynd Rúnars, Bergmál var valin í Cannes Atelier sem er flokkur upprennandi leikstjóra. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno og vann til sex alþjóðlegra verðlauna.

Rúnar er einnig vel þekktur fyrir stuttmyndir sínar sem hafa hlotið yfir 100 alþjóðleg verðlan og lof um allan heim. Síðasti bærinn hlaut tilnefningu til Óskarverðlauna árið 2006, myndin Smáfuglar, var valin í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes og var tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2008. Stuttmyndin Anna (2009) var valin til þátttöku í flokknum Director´s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Ljósmyndir:
Mynd úr Ljósbroti – Sophia Olsson.
Mynd af Rúnari Rúnarssyni – Claudia Hausfeld.