Um KMÍ
Á döfinni

26.2.2019

Stockfish kvikmyndahátíðin hefst á fimmtudaginn

Stockfish Film Festival hefur göngu sína fimmtudaginn 28. febrúar í Bíó Paradís. Opnunarmynd hátíðarinnar er kvikmyndin Brakland, dönsk/íslensk framleiðsla eftir Martin Skovbjerg. Aðgangur inn á sýninguna er ókeypis á meðan húsrúm leyfir og hefst dagskráin kl. 18.30 þar sem boðið verður upp á léttar veigar.

Sýndar verða yfir 20 kvikmyndir hvaðanæva að úr heiminum á hátíðinni, sem fer fram frá 28. febrúar til 10. mars í Bíó Paradís. Sérstök áhersla er lögð á sérvaldar alþjóðlegar verðlaunamyndir. Þá verða sex stuttmyndir sýndar á hátíðinni og munu þær keppa í stuttmyndakeppni Stockfish, Sprettfiski.

Fjöldi viðburða fyrir kvikmyndagerðarfólk verður í boði á meðan hátíðinni stendur. Þar má t.d. nefna málþingið Nordic Female Filmmakers Meeting Point, MEDIA-spjall með Martinu Petrovic, fostöðumanni MEDIA Desk í Króatíu, ásamt því að Wendy Mitchell, norrænn tengiliður og ritstjóri hjá Screen International, mun halda smiðju um kynningaráætlun kvikmynda fyrir leikstjóra og framleiðendur.

Að auki verða fjölbreyttir masterklassar líkt og; Gervahönnun með Ástu Hafþórs gervahönnuði; masterklassi með Luciano Barisone kvikmyndagagnrýnanda um heimildamyndir sem listsköpun; Music Supervison masterklassi og panell með Jonathan Finegold.

Þá verða einnig brot úr íslenskum kvikmyndaverkum sem eru í vinnslu sýnd þar sem áhorfendum gefst tækifæri til að spyrja fulltrúa frá hverju verkefni spjörunum úr. 

Allar nánari upplýsingar um þær kvikmyndir sem verða sýndar, miðakaup, aðra viðburði og dagskrá er að finna á heimasíðu Stockfish hátíðarinnar.