Um KMÍ
Á döfinni

1.3.2018

Stockfish kvikmyndahátíðin hefst í dag

Stockfish Film Festival hefur göngu sína í dag í Bíó Paradís. Opnunarmynd hátíðarinnar er kvikmyndin An Ordinary Man, sem skartar Heru Hilmarsdóttur og Óskarsverðlaunahafanum Ben Kingsley í aðalhlutverkum. Hera verður viðstödd sýninguna ásamt Brad Silberling leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar og Rick Dugdale, einum af framleiðendum myndarinnar. Aðgangur inn á sýninguna er ókeypis á meðan húsrúm leyfir.

Alls verða 19 kvikmyndir hvaðanæva að úr heiminum sýndar á hátíðinni, sem fer fram frá 1. til 11. mars í Bíó Paradís. Sérstök áhersla er lögð á sérvaldar alþjóðlegar verðlaunamyndir. Þá verða sex stuttmyndir sýndar á hátíðinni og munu þær keppa í stuttmyndakeppni Stockfish, Sprettfiski.

Fjöldi viðburða fyrir kvikmyndagerðarfólk verður í boði á meðan hátíðinni stendur. Þar má t.d. nefna hátíðarspjall með Steve Gravestock, dagskrárstjóra alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto. Einnig verða í boði áhugaverð málþing; Nordic Female Filmmakers Meeting Point og Film Location Summit. Þá mun Arne Bro, sem er yfir deild heimildamynda og sjónvarps hjá Danska kvikmyndaskólanum, halda masterklassa um heimildamyndir. Aðgangur er ókeypis og opinn öllum á flesta viðburði, þar sem Q&A sýningar kvikmynda eru undanskildar.

Allar nánari upplýsingar um þær kvikmyndir sem verða sýndar, miðakaup, aðra viðburði og dagskrá er að finna á heimasíðu Stockfish hátíðarinnar.