Um KMÍ
Á döfinni

4.3.2019

Stockfish kvikmyndahátíðin - MEDIA-spjall með Martinu Petrovic og kynningarefni kvikmynda með Wendy Mitchell

Stockfish kvikmyndahátíðin hóf göngu sína síðastliðinn fimmtudag og stendur fram á sunnudaginn 10. mars. Fjöldi viðburða fyrir kvikmyndagerðarfólk eru í boði á hátíðinni, en þar má meðal annars nefna MEDIA-spjall með Martinu Petrovic og smiðju með Wendy Mitchell um kynningaráætlun fyrir leikstjóra og framleiðendur.

MEDIA-spjall með Martinu Petrovic - miðvikudaginn 6. mars í Bíó Paradís (salur 2) kl. 16:00

Martina Petrovic er forstöðumaður MEDIA Desk í Króatíu, kynningar- og upplýsingastofa MEDIA Programme á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í fyrirlestri sínum mun Martina bera saman árangur íslenskrar og króatískrar kvikmyndagerðar, sérstaklega hvað varðar styrkjaveitingar frá MEDIA TV Programming sjóðnum. Martina telur mikilvægt að deila þekkingu okkar sem þjóðir sem liggja eins langt frá hverri annarri og raun ber vitni. Á þann veg getum við styrkt hvort annað og tekist á við áskoranir í sameiningu.

Kynningarefni kvikmynda með Wendy Mitchell – fimmtudaginn 7. mars í Bíó Paradís (salur 2) kl. 16:00

Wendy Mitchell starfar sem norrænn tengiliður og ritstjóri hjá Screen International auk þess að flytja fyrirlestra og veita ráðgjöf fyrir kvikmyndahátíðir víða um heim. Á hátíðinni mun Wendy halda smiðju um kynningaráætlun kvikmynda fyrir leikstjóra og framleiðendur. Hún mun fara yfir þau atriði sem þarf að huga að á undirbúningstímabili framleiðslu sem og á meðan tökum stendur. Hvernig skal nýta frumsýningu á kvikmyndahátíð og þá kynningu sem hún býður upp á til hins ýtrasta og hámarka kynningarstarfsemi fyrir útgáfu í bíóhúsum og á VOD leigur. Meðal annarra efna sem farið verður yfir eru; hvernig skal ná bestu myndstillunum, hvenær skal ráða kynningarstjóra, hvernig skal hátta samfélagsmiðlaherferð á tökutímabili, hvernig skal bregðast við neikvæðum dómum og margt fleira.

Nánari upplýsingar um Stockfish kvikmyndahátíðina og þá viðburði sem þar fara fram má finna á heimasíðu hennar.