Um KMÍ
Á döfinni

14.12.2018

Stuttmyndin Zoo-I-Side valin á Euro Connection

Stuttmynd Önnu Sæunnar Ólafsdóttur, Zoo-I-Side, hefur verið valin á European Short Film coproduction Forum sem fer fram 5. og 6. febrúar 2019 samhliða alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni Clermont-Ferrand í Frakklandi. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk stuttmynd hefur verið valin til þátttöku í Euro Connection. 

Á hátíðinni verður leitast við að finna meðframleiðandur að myndinni erlendis og verkefnið kynnt. 

Zoo-I-Side er byggð á smásögu Hjördísar Ólafsdóttur, Lokastigið. Myndin er fyrsta opinbera leikna verk leikstjórans Önnu Sæunnar, en áður hefur hún leikstýrt heimildamyndum og framleitt nokkrar stuttmyndir og komið að framleiðslu stærri verkefna.

Um stuttmyndina Zoo-I-Side:
Í
 því sem okkur virðist fjarlæg framtíð hafa loftslagsbreytingar orðið þess valdandi að 30% lands er komið undir yfirborð sjávar. Samhliða því hafa orðið miklar pólitískar sviftingar í Evrópu og heil samfélög verið byggð í neðanjarðarborgum, - en aðeins þeir efnuðustu búa á yfirborðinu. Í leit að úrlausn við ólæknandi sjúkdómi fær Rannvá (35), ein neðanjarðarbúa, tilvísun fyrir viðtali á stofnun á yfirborðinu sem þjónustar fólk við að undirbúa og framkvæma eigin dauðdaga á ánægjulegan hátt. 

Myndin endurspeglar í gegnum sögupersónur pólitískar andstæður og málefni sem við flestu könnum við í dag á Íslandi og um heim allan.

Myndin er í þróun og kvikmyndataka verður í höndum Möggu Völu sem útkskrifaðist sem kvikmyndatökumanneskja frá Norska Kvikmyndaskólanum á árinu.