Um KMÍ
Á döfinni

11.9.2017

Svanurinn heimsfrumsýnd í Toronto – helstu aðstandendur viðstaddir

Svanurinn, fyrsta kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttir í fullri lengd, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto þann 10. september og hlaut góðar viðtökur.

Helstu aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir sýninguna, þar á meðal  leikstjórinn og handritshöfundurinn Ása Helga, Gríma Valsdóttir aðalleikona myndarinnar og Ingvar E. Sigurðsson, einn af leikurum myndarinnar. Að lokinni sýningu svaraði þríeykið spurningum áhorfenda úr sal.

Svanurinn mun taka þátt í Discovery hluta Toronto hátíðarinnar, sem er tileinkaður upprennandi kvikmyndagerðarmönnum. Hátíðin var stofnuð árið 1976 og verður haldin í 42. skiptið frá 7. til 17. september.

Svanurinn segir frá afvegaleiddri níu ára stúlku sem er send í sveit um sumar til að vinna og þroskast, en verður í staðinn lykilþátttakandi í atburðarás sem hún skilur varla sjálf.

Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir og skrifar handritið að Svaninum, sem er byggð á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Myndin er framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Hlín Jóhannesdóttur fyrir Vintage Pictures á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Þýskalandi og Eistlandi.

Með sölu og dreifingu erlendis fer sölufyrirtækið M-Appeal (films@m-appeal.com).