Um KMÍ
Á döfinni

16.2.2018

Svanurinn verðlaunuð í Santa Barbara

Svanurinn, fyrsta kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur vann um helgina til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara. Myndin fékk sérstök dómnefndarverðlaun og hlaut Gríma Valsdóttir sérstakt lof dómnefndar fyrir leik sinn.

Þetta eru þriðju verðlaunin sem myndin hlýtur en Ása Helga hlaut verðlaun fyrir leikstjórn sína Kolkata International Film Festival og myndin var valin besta myndin á Kvikmyndahátíðinni í Kaíró í desember s.l. en sú hátíð er eina A-lista hátíðin sem haldin er í Afríku. 

Myndin er tilnefnd til níu Eddu verðlauna m.a. fyrir bestu mynd, handrit, leikstjórn og leikkonu í aðalhlutverki. 

Svanurinn var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni í Toronto í september 2017. Ása Helga skrifar einnig handritið að Svaninum, sem er byggð á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Myndin er framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Hlín Jóhannesdóttur fyrir Vintage Pictures á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Þýskalandi og Eistlandi.