Um KMÍ
Á döfinni
  • Copyright EFE

26.2.2018

Touch me Not vann Gullbjörninn í Berlín – Tómas Lemarquis í aðalhlutverki

Touch me Not, rúmensk kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Adina Pintilie, vann Gullbjörninn, aðalverðlaun hinnar virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíðar í Berlín. Íslenski leikarinn Tómas Lemarquis leikur eitt aðalhlutverkanna. Um mikinn heiður er að ræða og er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur kemur að sigurvegara Berlínarhátíðarinnar.

Á meðal fyrri sigurvegara Gullbjörnsins eru kvikmyndir leikstjóra á borð við Ingmar Bergman, Michelangelo Antonioni, Jean-Luc Godard, Sidney Lumet, Roman Polanski, Pier Paolo Pasolini, Satyajit Ray, Robert Altman, Ang Lee, Milos Forman, Paul Thomas Anderson og Terrence Malick.

Touch me Not er fyrsta kvikmynd Adina Pintilie í fullri lengd. Myndin kannar nánd og skorar þar á hólm fyrirframgefnar hugmyndir fólks um fyrirbrigðið. Myndin fjallar um hvernig fólk getur snert hvert annað með ólíkum hætti. Raunveruleika og tilbúningi er blandað saman þar sem nokkrum persónum er fylgt eftir í leit þeirra að nánd.

Tómas Lemarquis skaust fram á sjónarsviðið þegar hann lék titilhlutverkið í kvikmynd Dags Kára, Nóa albínóa, árið 2003. Síðan þá hefur hann leikið í myndum á við Blade Runner: 2049X-Men: Apocalypse3 Days to Kill og Snowpiercer. Árið 2009 lék Tómas aðalhlutverkið í íslensku kvikmyndinni Desember og í haust verður kvikmyndin Mihkel frumsýnd, þar sem hann leikur eitt aðalhlutverkanna. Auk þess hefur hann leikið stór hlutverk í evrópskum kvikmyndum og þáttaröðum, þar á meðal frá Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku og Spáni.