Um KMÍ
Á döfinni

30.8.2017

Undir trénu heimsfrumsýnd í Feneyjum – mennta- og menningarmálaráðherra viðstaddur

Undir trénu, þriðja kvikmynd leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fimmtudaginn 31. ágúst. Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra verður viðstaddur sýninguna, auk helstu aðstandenda myndarinnar.

Undir trénu mun taka þátt í Orrizonti keppni hátíðarinnar, sem er hluti af aðaldagskrá hennar. Hátíðin er elsta kvikmyndahátíð í heimi og með þeim allra virtustu. Hátíðin var stofnuð 1932 og verður haldin í 74. skiptið í ár frá 30. ágúst til 9. september.

Myndin verður frumsýnd hérlendis þann 6. september næstkomandi.

Undir trénu fjallar um Agnesi sem grípur Atla við að horfa á gamalt kynlífsmyndband, hendir honum út og meinar honum að umgangast 4 ára dóttur þeirra. Atli flytur inn á foreldra sína sem eiga í deilu við fólkið í næsta húsi. Stórt og fagurt tré sem stendur í garði foreldranna skyggir á garð nágrannanna, sem eru orðnir langþreyttir á að fá ekki sól á pallinn. Á sama tíma og Atli berst fyrir umgengni við dóttur sína verður deilan um tréð sífellt harðari. Eignaspjöll eru framin og gæludýr hverfa á dularfullan hátt þegar sögusagnir um mann með keðjusög fara á kreik.

Myndin hefur þegar hlotið lofsamlegan dóm hjá hinu virta tímariti Screen International.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson (Á annan veg, París norðursins) leikstýrir Undir trénu og skrifar handritið ásamt Huldari Breiðfjörð. Framleiðendur myndarinnar eru Grímar Jónsson, Sindri Páll Kjartansson og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir hönd Netop Films á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Danmörku, Póllandi og Þýskalandi.

Með sölu og dreifingu erlendis fer fyrirtækið New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com)

Stikla:

https://www.youtube.com/embed/tU7KeDwJCAc

Undanfarin ár hafa íslenskar kvikmyndir verið að ryðja sér til rúms á hátíðinni en árið 2010 var fransk/íslenska stuttmyndin Líf og dauði Henrys Darger í leikstjórn Bertrand Mandico valin til þátttöku í Orizzonti. Everest, kvikmynd Baltasars Kormáks var opnunarmynd hátíðarinnar árið 2015 og í fyrra tók Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson þátt í Venice Days, sem er hliðarkeppni á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, og vann þar til Queer Lion verðlaunanna.