Um KMÍ
Á döfinni

27.7.2017

Undir trénu valin til þátttöku í Orrizonti keppni Feneyja

Undir trénu, þriðja mynd leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, hefur verið valin til þátttöku í Orrizonti keppni Kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum sem er hluti af aðaldagskrá hennar. Hátíðin er elsta kvikmyndahátíð í heimi og með þeim allra virtustu. Hátíðin var stofnuð 1932 og verður haldin í 74. skiptið í ár dagana 30. ágúst til 9. september.

Undanfarin ár hafa íslenskar kvikmyndir verið að ryðja sér til rúms á hátíðinni en árið 2010 var fransk/íslenska stuttmyndin Líf og dauði Henrys Darger í leikstjórn Bertrand Mandico valin til þátttöku í Orizzonti. Everest, mynd Baltasar Kormáks var opnunarmynd hátíðarinnar árið 2015 og í fyrra tók Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson þátt í Venice Days sem er hliðarkeppni á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og vann þar til Queer Lion verðlaunanna. 

Undir trénu fjallar um Agnesi sem grípur Atla við að horfa á gamalt kynlífsmyndband, hendir honum út og meinar honum að umgangast 4 ára dóttur þeirra. Atli flytur inn á foreldra sína sem eiga í deilu við fólkið í næsta húsi. Stórt og fagurt tré sem stendur í garði foreldranna skyggir á garð nágrannanna, sem eru orðnir langþreyttir á að fá ekki sól á pallinn. Á sama tíma og Atli berst fyrir umgengni við dóttur sína verður deilan um tréð sífellt harðari. Eignaspjöll eru framin og gæludýr hverfa á dularfullan hátt þegar sögusagnir um mann með keðjusög fara á kreik.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson (Á annan veg / 2011, París norðursins / 2014) er sem áður sagði leikstjóri  myndarinnar og skrifaði handritið ásamt Huldari Breiðfjörð. Framleiðendur myndarinnar eru Grímar Jónsson, Sindri Páll Kjartansson og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir hönd Netop Films á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Danmörku, Póllandi og Þýskalandi.

Með sölu og dreifingu erlendis fer fyrirtækið New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com

Stiklu úr myndinni má finna á facebook síðu myndarinnar.