Um KMÍ
Á döfinni

24.1.2018

Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason og Atelier eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur unnu til verðlauna í Angers

Vetrarbræður, hin dansk/íslenska fyrsta kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, vann aðalverðlaun Premiers Plans – Angers Film Festival í Angers í Frakklandi. Atelier, dönsk/íslensk stuttmynd Elsu Maríu Jakobsdóttur sem er útskriftarverkefni hennar frá Danska kvikmyndaskólanum, vann nemendaverðlaun hátíðarinnar.

Vetrarbræður

Hin heimsþekkta leikkona Catherine Deneuve var formaður dómnefndar aðalkeppni hátíðarinnar. Vetrarbræður deildi aðalverðlaunum hátíðarinnar með rússnesku kvikmyndinni Tesnota eftir Kantemir Balagov og vann þar með til 15.000 evra til kynningar myndarinnar í Frakklandi og 1500 evra til handa leikstjóra. Myndin hefur verið seld til dreifingar í Frakklandi og hefur sýningar þar á næstunni. Þess má geta að Hjartasteinn vann til sömu verðlauna á síðasta ári og er nú sýnd í 26 kvikmyndahúsum víðsvegar um Frakkland.

Vetrarbræður hefur unnið til 13 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss í ágúst síðastliðnum, þar sem fjögur verðlaunanna unnust.

Myndin var nýverið tilnefnd til 15 Robert verðlauna og 3 Bodil verðlauna eins og áður hefur verið greint frá.

Atelier

Atelier var frumsýnd á hinni virtu Karlovy Vary kvikmyndahátíð í Tékklandi síðastliðið sumar og var valin besta íslenska stuttmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF) í október á síðasta ári.

Myndin hefur verið sýnd á Norsku kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi, á Love & Anarchy – alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Helsinki og kvikmyndahátíðinni í Stokkhólmi. Í vor mun myndin svo taka þátt á Cinema Next Europe kvikmyndahátíðinni í Linz í Austurríki.