Um KMÍ
Á döfinni

4.9.2018

Vetrarbræður í forvali Danmerkur fyrir Óskarsverðlaunin

Vetrarbræður, dönsk/íslensk kvikmynd Hlyns Pálmasonar, er á meðal þriggja mynda sem koma til greina sem framlag Danmerkur til Óskarsverðlauna fyrir bestu erlendu kvikmynd. Hinar myndirnar eru Lykke-Per eftir Bille August og Den skyldige eftir Gustav Möller. Danska Óskarsverðlaunanefndin mun tilkynna um endanlegt val á framlagi Danmerkur þann 20. september næstkomandi.

Nýverið var tilkynnt um að Vetrarbræður væri framlag Danmerkur til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs þetta árið.

Myndin hefur unnið til 18 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni í Sviss í ágúst 2017, þar sem fjögur verðlaunanna unnust. Myndin hefur einnig unnið til níu Robert verðlauna og tvennra Bodil verðlauna í Danmörku. Hlynur Pálmason vann einnig til Dreyer verðlaunanna fyrir framúrskarandi listræna hæfni.

Vetrarbræður var sýnd á RÚV á sunnudaginn 2. september síðastliðinn og er nú aðgengileg á sjónvarpssíðu RÚV.