Um KMÍ
Á döfinni

14.8.2017

Vetrarbræður vann til fimm verðlauna – fern verðlaun á Locarno hátíðinni

Vetrarbræður, hin dansk/íslenska kvikmynd eftir Hlyn Pálmason, vann um nýliðna helgi til fjögurra verðlauna á Locarno kvikmyndahátíðinni í Sviss. Myndin vann einnig til verðlauna á New Horizons hátíðinni í Wroclaw í Póllandi.

Á Locarno hátíðinni vann Elliot Crosset Hove verðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki, verðlaun fyrir bestu evrópsku kvikmynd, fyrstu verðlaun dómnefndar ungmenna og sérstök dómnefndarverðlaun kirkjunnar. Á New Horizons hátíðinni í Póllandi hlaut myndin sérstök dómnefndarverðlaun FIPRESCI gagnrýnendasamtakanna.

Vetrarbræður fer því vel af stað á vegferð sinni um kvikmyndahátíðir heimsins. Myndin var heimsfrumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni  þann 3. ágúst síðastliðinn.

Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Vetrarbræðrum, sem er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Hlynur útskrifaðist úr Danska Kvikmyndaskólanum árið 2013. Útskriftarmynd hans Málarinn með Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki var tilnefnd til Dönsku Kvikmyndaverðlaunanna og vann verðlaun fyrir bestu stuttmynd á bæði kvikmyndahátíðinni í Óðinsvéum og RIFF hátíðinni í Reykjavík. Nýjasta stuttmynd hans Sjö bátar  var heimsfrumsýnd í keppnisflokki Toronto kvikmyndahátíðarinnar og var tilnefnd sem stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2015.

Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og hvernig þeirra daglega rútína er dag einn brotin upp með ofbeldisfullum deilum milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Sagan er um skort af ást með áherslu á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður. 

Myndin er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Masterplan Pictures og er Anton Máni Svansson meðframleiðandi fyrir hönd Join Motion Pictures.