Um KMÍ
Á döfinni

8.10.2018

Víti í Vestmannaeyjum vann til tvennra verðlauna á Schlingel kvikmyndahátíðinni

Víti í Vestmannaeyjum, í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar, vann til tvennra verðlauna á Schlingel kvikmyndahátíðinni. Myndin vann Chemnitz verðlaun alþjóðlegrar dómnefndar hátíðarinnar og hlaut einnig sérstök dómnefndarverðlaun barnadómnefndar hátíðarinnar. Um er að ræða fyrstu verðlaun myndarinnar. Schlingel hátíðin er sérstaklega fyrir börn og ungmenni og fór fram í Chemnitz í Þýskalandi frá 1. – 7. október. Bragi Þór og Lúkas Emil Johansen aðalleikari myndarinnar voru viðstaddir hátíðina og veittu verðlaununum viðtöku.

Alþjóðleg dómnefnd hátíðarinnar hafði eftirfarandi að segja um veitingu Chemnitz verðlaunanna:

„Barnamyndirnar sem við sáum á hátíðinni gáfu frá sér geislandi lífsorku. Börnin vita hvað þau þurfa að gera, eru með markmið og viljastyrk til að uppfylla markmiðin. Þetta er öfugt við flestar myndir um fullorðið fólk. Fullorðna fólkið upplifir tilvistarkreppur. Þeim líður oft eins og það sé lamað og utangátta, það stendur í skilnaði eða glímir við geðsjúkdóma. Aftur á móti hafa börn í kvikmyndum fremur jákvæð viðhorf og standa saman, eru uppfull af orku og styrk, eru mestmegnis bjartsýn og leitast eftir sátt og samlyndi. Þetta er nákvæmlega þar sem fyrir augu ber í Víti í Vestmannaeyjum. Hinn 10 ára gamli Jón, sem Lúkas Emil Johansen leikur, ferðast á hið kunna Orkumót í Vestmannaeyjum. Hann leitast eftir því að hjálpa liði sínu, Fálkunum, og berst stöðugt fyrir því að ná markmiðum sínum þrátt fyrir erfiða andstæðinga og skyndilegt eldgos sem veldur því að eyjan verður undirlögð yfirþyrmandi gráum skýjum. Kvikmynd um kraft fólks, kraft náttúrunnar og kraft kvikmyndagerðar.“

Bragi Þór Hinriksson leikstýrði Víti í Vestmannaeyjum og handritið skrifuðu Jóhann Ævar Grímsson, Gunnar Helgason og Ottó Geir Borg. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Gunnar Helgason. Þórhallur Gunnarsson, Anna Vigdís Gísladóttir, Kjartan Þór Þórðarson, Ragnar Agnarsson og Hilmar Sigurðsson framleiða Víti í Vestmannaeyjum fyrir hönd Sagafilm. Í helstu hlutverkum eru Lúkas Emil Johansen, Viktor Benóný Benediktsson, Ísey Heiðarsdóttir, Róbert Luu, Jóhann G. Jóhannsson, Óli Gunnar Gunnarssn, Ilmur Kristjánsdóttir, Gunnar Hansson og Sigurður Sigurjónsson.

Á næstunni mun Víti í Vestmannaeyjum fara á hátíðir um allan heim, þar á meðal Norræna kvikmyndadaga í Lübeck, alþjóðlegu barnamyndahátiðina í Chicago og Cinekid hátíðina í Amsterdam.